Í annað sinn í vikunni voru viðskipti með hlutabréf í kauphöllinni í New York stöðvuð vegna þess að S&P vísitalan, sem mælir gengi 500 verðmætustu félögin sem skráð eru á bandarískan hlutabréfamarkað, hafði lækkað um sjö prósent. Við slíka lækkun stöðvast viðskipti sjálfkrafa í 15 mínútur og er um að ræða varnagla sem settir hafa verið inn í viðskiptakerfin til að reyna að draga úr líkum á hruni á markaði.
Stöðvunin dugði ekki til fyrst um sinn og vísitalan hélt áfram að lækka eftir að viðskipti hófust á ný. Hún hefur þó aðeins tekið við sér nú og er niður um 6,55 prósent þegar þetta er skrifað. Falli hlutabréfin um meira en 13 prósent innan dags munu viðskipti stöðvast aftur. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þau félög sem hafa fallið mest í Bandaríkjunum í dag eru flugfélög.
Ástæðan fyrir falli á virði hlutabréfa í dag má rekja beint til þess að í nótt tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, frá því að sett hefði verið ferðabann sem á að standa yfir í 30 daga frá og með komandi föstudegi. Það mun virka þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í nótt á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.