Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að nú sé „lag að beita öllum okkar þrýstingi á stjórnvöld í Bandaríkjunum til að fá einhverja undanþágu fyrir íslensk flugfélög og hugsa hlutina hratt og vel.“
Ástæðan fyrir skrifum þingmannsins er tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í 30 daga frá 14. mars. Forseti Bandaríkjanna tilkynnti þetta í nótt. Ferðabannið mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt.
Þá féllu hlutabréf í Icelandair um 22 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöll Íslands í morgun. Alls lækkaði úrvalsvísitalan um rúmlega níu prósent í fyrstu viðskiptum.
Rósa Björk segir þetta vera makalausa ákvörðun hjá forseta Bandaríkjanna sem hafi brugðist afar illa við COVID-19 í Bandaríkjunum hingað til. Hann slái nú tilbaka „eins og stórum karli sæmir og kennir Evrópu um í leiðinni af því hann er sannur pópulisti.“
Hún óskar enn fremur stjórnendum Icelandair og forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar á Íslandi góðs gengis „við þessi ótrúlegu tíðindi.“
Þetta er makalaus ákvörðun hjá forseta Bandaríkjanna sem hefur brugðist afar illa við COVID19 í Bandaríkjunum hingað...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Thursday, March 12, 2020