Þrír stærstu bankarnir á Íslandi, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa allir sent frá sér sérstakar tilkynningar til að bregðast til því ástandi sem upp er komið vegna COVID-19 faraldursins.
Þá kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka að hann hafi gripið til margvíslegra ráðstafana til að tryggja órofna þjónustu við viðskiptavini ásamt því að draga úr líkindum á smiti í hópi starfsmanna og viðskiptavina sem sækja þjónustu til bankans.
„Bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við aðstæður sem þessar og eru eigin- og lausafjárhlutföll bankans sterk. Starfsfólk bankans mun halda áfram að eiga í góðum samskiptum við viðskiptavini og leita lausna á meðan þessu tímabili stendur. Bankinn mun koma til móts við þarfir viðskiptavina, svo sem með því að bjóða frystingu afborgana útlána tímabundið hjá þeim viðskiptavinum, einstaklingum og fyrirtækjum, sem mest verða fyrir áhrifum af þessum fordæmalausu aðstæðum,“ segir í tilkynningunni.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningunni þetta vera fordæmalausa tíma „en við munum gera allt okkar til að sýna samfélagslega ábyrgð. Við fögnum aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki og munum við einnig leggja áherslu á að leita farsælla lausna með einstaklingum og fyrirtækjum í gegnum þetta tímabundna ástand.“
Bjóða greiðsluhlé
Arion banki býður einstaklingum greiðsluhlé vegna Covid-19, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.
Þá segir að bankinn muni koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðalána vegna Covid-19. Þessum einstaklingum bjóðist að gera hlé á afborgunum lánanna í allt að þrjá mánuði til að auðvelda þeim að takast á við fyrirsjáanlegar áskoranir.
„Ef þörf er á frekari sveigjanleika er farið yfir málin með hverjum og einum viðskiptavini,“ segir í tilkynningu Arion banka.
Bankinn vel í stakk búinn til að takast á við ástandið
Á vef Landsbankans kemur fram að bankinn bjóði ýmis úrræði fyrir einstaklinga sem sjá fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra aðstæðna – atvinnumissis eða veikinda – meðal annars að sækja um að fresta greiðslum af íbúðalánum. Ýmsar lausnir séu einnig í boði fyrir fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann og lenda í tímabundnum erfiðleikum.
Bankinn minnir enn fremur á að í Landsbanka-appinu og netbankanum sé hægt að breyta yfirdráttarheimild, skipta kreditkortareikningum og fá Aukalán til allt að 5 ára.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að þau ætli að vinna með og styðja við viðskiptavini þeirra á meðan þetta gengur yfir og að bankinn sé vel í stakk búinn til að takast á við þetta tímabundna ástand.
Vegna COVID-19 biður bankinn viðskiptavini vinsamlegast um að nýta sér stafræna þjónustu bankans ef þess er kostur, fremur en að koma í útibú.
„Við hvetjum alla viðskiptavini sem sjá fram á greiðsluerfiðleika að hafa sem fyrst samband við bankann til að fá lausnir og ráðgjöf við hæfi,“ segir á vef bankans.