Reynir Traustason, sem stýrði DV um árabil og var einn stofnenda Stundarinnar, hefur verið ráðinn ritstjóri fríblaðsins Mannlífs, sem dreift er frítt vikulega. Frá þessu er greint á Vísi.
Þar segir Reynir að hann hafi verið hættur í blaðamennsku en það hafi svo allt í einu runnið upp fyrir honum að það væri engin leið að hætta. Reynir á enn 14 prósent hlut í Stundinni og sonur hans, Jón Trausti Reynisson, er framkvæmdastjóri og annar ritstjóri þess miðils.
Reynir segir við Vísi að Stundin sé þó ekki alveg hans fjölmiðill. „Ég hef ekki skipt mér að rekstrinum í tvö ár. Ég styð þetta fólk eindregið, þau eru að gera fína hluti og það er allt í lagi. Þau eru í hagnaði sem er afrek út af fyrir sig. En, Stundin er ekki alveg minn fjölmiðill. Ég er poppaðari en svo. Stundin er flott blað en alvörugefið, ég er ekki eins alvörugefinn einstaklingur. En, meðan vel gengur er maður þögull hluthafi.“
Reynir hafði skrifað á Facebook-síðu sína í gær að hann hefði, í miðju yfirstandandi fári, ákveðið að snúa aftur á fjölmiðla og „takast á hendur spennandi verkefni sem ég þekki ágætlega.“ Þar kom hins vegar ekki fram hvert verkefnið væri.
Í miðju þessu fári öllu hef ég ákveðið að snúa aftur á fjölmiðla og takast á hendur spennandi verkefni á sviði sem ég...
Posted by Reynir Traustason on Thursday, March 12, 2020
Reynir stýrði, líkt og áður segir, DV árum saman ásamt þeim hópi sem myndar kjarna lykilstarfsfólks Stundarinnar í dag. Á árinu 2014 áttu sér stað mikil átök um yfirráð yfir miðlinum í kjölfar þess að DV hafði fengið fjárhagslega fyrirtgreiðslu víða til að standa undir erfiðum rekstri, eðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna. Ólafur M. Magnússon, fyrrum stjórnarmaður í DV, sagði í samtali við Kjarnann í október 2014 að menn tengdir Framsóknarflokknum hefðu viljað kaupa DV. Framkvæmdastjóri flokksins hafnaði því í kjölfarið í yfirlýsingu.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Sú samsteypa fór síðan á hausinn haustið 2017 skömmu eftir að núverandi eigendur Birtings, sem leiddur er af Halldóri Kristmannssyni, framkvæmdastjóra hjá Alvogen, gengu inn í kaup Pressunar á Birtingi, en Pressan gat ekki greitt fyrir fjölmiðlafyrirtækið.