Í hádeginu í dag var búið að taka 1.526 sýni til að leita eftir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Af þeim höfðu 156 verið greind jákvæð. Þar af var um 31 annars stigs smit og fimm þriðja stigssmit. Fjögur smit hefur ekki verið hægt að rekja og 14 eru enn í rakningu.
Alls eru um 1.400 komnir í sóttkví og búist er við að þeir verði orðnir rúmlega 1.500 áður en dagurinn í dag er allur. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra á daglegum upplýsingafundi almannavarna og sóttvarnarlæknir sem fram fór í dag.
Víðir sagði að nú færa fram uppfærsla á hættumati og að verið væri að horfa sérstaklega á Spán, Frakkland og Þýskaland í þeim efnum.
Alma Möller landlæknir þakkaði heilbrigðisfólki sérstaklega fyrir þeirra framlag á þessum erfiðu tímum. Hún sagði að nú væri alls um 300 manns skráðir í hina svokölluðu bakvarðarsveit heilbrigðisstarfsmanna og helmingur þeirra væri skráður til að sinna sjúklingum sem greinst hafi með COVID-19. Þar af eru 51 læknir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara var einnig á fundinum og ræddi áhrif faraldursins á þann hóp, sem er einna viðkvæmastur fyrir vegna hans. Á meðal þess sem hún hvatti til var að fjölskyldur leggi til hliðar allt sem áður hafi mögulega staðið á milli einstaklinga innan þeirra og standi saman við þessar aðstæður sem nú eru uppi.
Stefán Eiriksson, útvarpsstjóri RÚV og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, var einnig á fundinum og sagðist þar hafa töluverða reynslu af neyðarstjórnun úr fyrri störfum. Stefán sagði að það fólk sem héldi um skipulagningu aðgerða: landlæknir, sóttvarnarlæknir og almannavarnir ríkislögreglustjóra, væri fólk á heimsmælikvarða.
Hann fór svo yfir þær aðgerðir sem RÚV hefur ráðist í til að mæta þeirra stöðu sem nú er uppi í samfélaginu, meðal annars stórauknu framboði á dagskrá og vinnsla fréttaefnis um COVID-19. Hann boðaði líka samtal við framleiðendur og rétthafa um að gera gamalt efni frá RÚV aðgengilegt á sérstakri gullsjónvarpsrás.