Íslensk stjórnvöld hvetja Íslendinga sem eru á ferðalagi erlendis til að flýta heimför og ráða landsmönnum frá því að leggjast í ferðalög.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneytinu vegna tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, ráðherra málaflokksins, þess efnis í ljósi þeirra yfirgripsmiklu ráðstafana sem erlend ríki hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 og kunna að hafa áhrif á Íslendinga erlendis. „Víða eiga Íslendingar á hættu að verða innlyksa eða lenda í sóttkví við erfiðar aðstæður. Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi,“ segir Guðlaugur Þór „Í því ljósi höfum við ákveðið að ráða Íslendingum gegn ferðalögum erlendis og þeim sem eru á ferðalagi erlendis að íhuga að snúa heim fyrr en ella.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að með þessum ráðleggingum sé brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin vegna viðbragða margra ríkja við faraldrinum sem nú geisar. „Þær hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á samfélag okkar og stöðu Íslendinga á ferðalögum erlendis.“
Áfram gilda skilgreiningar sóttvarnarlæknis um áhættusvæði og tilmæli hans um að Íslendingar sem þaðan komi fari í sóttkví. Ekki er gert ráð fyrir að takmarka ferðir erlendra ferðamanna hingað til lands.
Utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur Íslands hafa unnið að því síðasta sólarhring að afla upplýsinga frá stjórnvöldum ríkja um hvernig flugi og öðrum samgöngum verður háttað yfir landamæri til að tryggja að Íslendingar komist heim.
Icelandair mun fella niður fjölda ferða
Icelandair varaði við því í upphafi viku að félagið væri að endurskoða flugferðir sínar í mars og apríl, sem áttu að vera um 3.500, og að það mætti búast við því að þeim myndi fækka enn meira en þegar hafði verið tilkynnt um. Það væri tilkomið vegna enn meiri samdráttar í eftirspurn og bókunum. Síðan að sú tilkynning var send út hefur staða Icelandair versnað umtalsvert.
Á miðnætti tók gildi ferðabann til Bandaríkjanna, en viðskiptamódel Icelandair snýst að uppistöðu um að ferja farþegar milli Evrópu og Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi. Til viðbótar tók í dag gildi ferðabann til Danmerkur sem einnig er mikilvægur áfangastaður í leiðarkerfi Icelandair. Ljóst er að fyrirhuguðum ferðum Icelandair í mars og apríl hið minnsta muni fækka langt umfram það sem lagt var upp með í byrjun.
Á ferðaþjónustufréttavefnum Túrista var í vikunni tekið saman að Icelandair hafi að jafnaði flutt um 3.100 farþega á degi hverjum milli Íslands og Bandaríkjanna í mars og apríl í fyrra samkvæmt tölum frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Þar kom einnig fram að 39 prósent af tekjum Icelandair á síðasta ári hafi komið frá Norður-Ameríku.
Ákveði Icelandair að fljúga ekki tómum vélum út næstu vikurnar gæti skapast hætta á að þeir Íslendingar sem eru staddir í Bandaríkjunum gætu átt í erfitt með að komast heim.