Sóttvarnalæknir hefur hækkað áhættumat fyrir Spán, Þýskaland og Frakkland í ljósi útbreiðslu COVID-19 í þeim löndum. Önnur slík svæði eru: Kína, Íran, Suður Kórea, Ítalía og skíðasvæði í Ölpunum.
Í tilkynningu frá almannavarnadeild rikislögreglustjóra segir að ástæða hækkunar á áhættumati sé mikil fjölgun sýktra og alvarlega veikra í þessum löndum. Spánn, þar á meðal Kanaríeyjar, Þýskaland og Frakkland teljast því nú til hááhættusvæða.
Það þýðir að Íslendingar sem koma frá Spáni og Frakklandi skulu fara í sóttkví í 14 daga frá og með deginum í dag 14. mars 2020. Farþegar sem koma frá Þýskalandi skulu fara í sóttkví í 14 daga frá og með 12. mars 2020.
Fyrr í dag hvöttu íslensk stjórnvöld Íslendinga sem eru á ferðalagi erlendis til að flýta heimför og réðu landsmönnum frá því að leggjast í ferðalög.
Í tilkynningunni sagði einnig að mörg erlend ríki hefðu undanfarinn sólarhring gripið til þess að loka landamærum og skylda alla sem þangað koma í sóttkví. „Ekki er hægt að útiloka að fleiri ríki muni grípa til svipaðra ráðstafana á næstu dögum. Það er mat utanríkisráðuneytisins, að höfðu samráði við forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, sóttvarnarlækni og almannavarnir, að tímabært sé að ráða Íslendingum formlega frá því að leggja upp í ferðalög. Þá eru Íslendingar á ferðalagi erlendis beðnir að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför með tilliti til ofangreindra þátta og Íslendingar búsettir erlendis hvattir til að kanna rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.“