Fjárhagsleg áhrif vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar á starfsemi Icelandair Group eru enn óviss, en ljóst er að hún mun hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins. Það vinnur nú að því að lágmarka þau áhrif, meðal annars með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum til að lækka launakostnað verulega.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair sem send var til Kauphallar Íslands í kvöld.
Þar kemur fram að lausafjárstaða félagsins hafi numið rúmum 39 milljörðum króna í árslok 2019 og sé enn á svipuðum stað í dag.
Óvissa ríkir um háannatíma sumarsins en félagið gerir að óbreyttu ráð fyrir að draga úr flugframboði um að minnsta kosti 25 prósent miðað við það sem áður hafði verið kynnt. Félagið mun þó leggja áherslu á að viðhalda þeim sveigjanleika sem þarf til að geta brugðist hratt við eftir því hvernig eftirspurn þróast.“
Markaðsviði Icelandair hefur hríðfallið undanfarið. Meðal annars lækkaði Icelandair um 22,8 prósent á fimmtudag, eftir að Bandaríkin tilkynntu um ferðabann til landsins. Bréf félagsins jöfnuðu sig aðeins á föstudag en markaðsvirði þess við lok viðskipta þá var rétt um 22,8 milljarður króna. Það hefur ekki verið lægra en það er um þessar mundir frá því snemma árs 2011. Markaðsvirði Icelandair fór niður fyrir 30 milljarða króna í fyrsta skipti í átta ár í byrjun síðustu viku.
Eigið fé Icelandair var um 60 milljarðar króna um síðustu áramót. Markaðsvirðið er því um rúmlega einn þriðji af eigin fé félagsins og rúmlega helmingur af lausu fé þess.