Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að fyrstu niðurstöður sem borist hafa úr skimunum Íslenskrar erfðagreiningar bendi til þess að um eitt prósent landsmanna sé með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Frá þessu greindi hann í Silfrinu á RÚV í dag.
Fyrri prófanir hafa aðallega verið á fólki sem kom frá helstu háhættusvæðum. Í morgun höfðu 161 manns greinst þegar búið var að taka 1.545 sýni. Það þýðir að um tíu prósent þeirra sem höfðu verið prófaðir úr þeim hópi sem er í sóttkví eða einangrun höfðu greinst með veiruna. Prófanir Íslenskrar erfðagreiningar á öðrum hópum sýnir að smit eru mun óalgengari þar, eða í kringum eitt prósent. Þórólfur sagði að frekari niðurstöður ættu að koma frá Íslenskri erfðagreiningu í dag.
Á síðunni covid.is kemur fram að í morgun klukkan 7:30 hafi alls 1.545 sýni verið tekin. Klukkan 9:30 hafði teknum sýnum fjölgað 1.868, eða um 323, án þess að neitt nýtt smit hefði greinst. Allar líkur eru á að þar sé um að ræða skimanir sem framkvæmdar hafa verið af Íslenskri erfðagreiningu.
Skimanir Íslenskrar erfðagreiningar hófust á föstudagsmorgun og unnið er úr niðurstöðum þeirra um nætur. Þúsundir Íslendinga bókuðu tíma í skimun eftir COVID-19 sjúkdómnum hjá Íslenskri erfðagreiningu eftir að opnað var fyrir bókanir á fimmtudagskvöld og fljótlega þurfti að bæta við tímum vegna mikillar eftirspurnar.
Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu sem send var út á föstudag sagði að mikill meirihluti þeirra sem smitast verði ekki alvarlega veikir. Flestir sem komi í skimun hafi aldrei fundið fyrir einkennum og séu því líklega ekki smitandi. Það sama eigi við alla starfsmenn í húsinu, hvort sem þeir starfa við skimanir eða ekki. Það sé því ekki meiri hætta á ferðum í húsinu en annars staðar í borginni þar sem fólk kemur saman.