Landamærum hefur undanfarna daga verið lokað í gríð og erg í Evrópu, landamærum sem í eðlilegu árferði standa galopin á grundvelli Schengen-samstarfsins, eins helsta máttarstólpa evrópskrar samvinnu.
Allt virðist á suðupunkti í álfunni, sem orðin er miðpunktur heimsfaraldurs kórónuveiru sem veldur COVID-19, sýkingu sem vert er að ítreka að er langflestum að mestu meinlaus, en þó bráðsmitandi og kemur illa við hluta fólks og þá sér í lagi viðkvæma hópa, eldra fólk og þá sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma.
Í dag mæltist Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til þess að stjórnmálaleiðtogar og ríkisstjórnir ESB bönnuðu öll „ónauðsynleg ferðalög“ utanaðkomandi til Evrópu. Schengen-ríki, þar á meðal Ísland, voru hvött til þess að fylgja stefnu Evrópusambandsins hvað þetta varðar.
Leiðtogar Evrópusambandsins munu ræða þessa tillögu framkvæmdastjórnarinnar á símafundi á morgun, en óljóst er hvað verður. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að málið yrði rætt í ríkisstjórn á morgun.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti, og reyndar Ursula von der Leyen sjálf, höfðu áður gagnrýnt þau ríki sem tekið höfðu einhliða ákvarðanir um lokun landamæra. Fyrst var ákvörðun Bandaríkjamanna um ferðabann á Schengen-ríkin mótmælt, en af Schengen-ríkjum voru það Danir sem riðu á vaðið með að loka landamærum sínum fyrir erlendum ríkisborgurum. Pólverjar fylgdu í kjölfarið og svo lokaði Noregur einnig landamærum sínum.
Nú hafa Þjóðverjar einnig lokað landamærum sínum að hluta, en í morgun var gáttum inn til Þýskalands frá Frakklandi, Austurríki, Sviss og Lúxemborg lokað fyrir öllu nema vöruflutningum og fólki sem ferðast á milli landa til vinnu. Enn hefur engu verið lokað á landamærum Þýskalands við Holland og Belgíu.
Vilji þýskra stjórnvalda hafði staðið til þess að virða Schengen-samstarfið og samkvæmt fregnum þýskra miðla var ákvörðun þessi tekin bæði til þess að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og en ekki síður til þess að koma í veg fyrir að almenningur hamstraði nauðsynjavörur í stórmörkuðum á landamærunum. Slíkt hamstur var byrjað að vera til vandræða, samkvæmt frétt BBC.
Sögur af svipuðu tagi berast nú víða frá Evrópu. Tékkar og Finnar hafa lokað landamærum sínum og í kvöld mun Spánn taka upp landamæraeftirlit og einungis hleypa spænskum ríkisborgurum og öðrum íbúum á Spáni heim. Rússar ætla líka að meina öllum útlendingum inngöngu, sömuleiðis Ungverjar. Utan Evrópu bárust svo þau tíðindi síðdegis frá Kanada að ríkið verði lokað öðrum en Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum.
Of seint að reisa veggi þegar veiran er orðin útbreidd
Þannig eru þessi viðbrögð ríkja, að reisa veggi til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar, orðinn næsta almenn. En eru þau líkleg til þess að stöðva útbreiðslu kórónuveirunar, ef hún er þegar farin að breiðast út innanlands? Vísindin, sérfræðingar í lýðheilsuvísindum, virðast segja almennt nei.
Í Danmörku sagði Søren Brostrøm, forstjóri Sundhedsstyrelsen, stofnunar sem samsvarar landlæknisembættinu hér á landi, að tekin hefði verið pólitísk ákvörðun en ekki vísindaleg, þegar Mette Frederiksen forsætisráðherra lokaði landamærunum. Það staðfesti Frederiksen síðar.
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, skildi ekkert í ákvörðun dönsku stjórnarinnar. Hann sagði í samtali við Aftonbladet strax á föstudagskvöld að aðgerðin væri „algjörlega tilgangslaus“ og myndi engu skila við að hefta útbreiðslu veirunnar innan Danmerkur.
Sérfræðingar í faraldsfræði sögðu það sama í við danska blaðið Politiken um helgina. Jens Lundgren, prófessor og smitsjúkdómasérfræðingur við Kaupmannahafnarháskóla, sagði að lokun landamæra hefði mögulega getað virkað, áður en veiran var byrjuð að breiðast út í dönsku samfélagi.
„Þegar það er orðið svo mikið smit í samfélaginu að fólk er farið að smita hvort annað, skiptir það minna máli, að það komi einhverjir smitaðir að utan,“ sagði prófessorinn við Politiken.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vandaði orð sín er hann var spurður um álit sitt á slíkum aðgerðum í Silfrinu á RÚV í gær. Hann sagðist teljaof seint að grípa til þessa ráðs þegar faraldur væri þegar hafinn innanlands.
„Nú ætla ég að passa mig að leggja ekki sérstakan dóm á það sem hinar Norðurlandaþjóðirnar gera. En sóttvarnalæknar hafa ekki lagt þessar bröttu aðgerðir til og þær litast dálítið af pólitík,“ sagði Þórólfur, sem hefur verið í reglulegu sambandi við sóttvarnalækna hinna Norðurlandanna vegna stöðu mála.
Ríki ættu að prófa eins marga og þau mögulega geta
Skilaboð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) til ríkja heims í dag eru þau að prófa, prófa, prófa. Skima fyrir smiti hjá öllum sem mögulega gætu hugsanlega verið smitaðir.
„Þú getur ekki barist við eld með bundið fyrir augun,“ sagði dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri WHO á blaðamannafundi í dag, í þeirri merkingu að ekki væri hægt að hefta útbreiðslu veirunnar án þess að vita hver væri smitaður.
WHO hefur ekki mælt með því að ríki reisi veggi sín á milli, og mælir raunar frekar gegn því, samkvæmt leiðbeiningum sem gefnar voru út í lok febrúar um hömlur á ferðalög. Stofnunin segir tímabundnar víðtækar ferðatakmarkanir geta verið réttlætanlegar í upphafi faraldurs, til þess að gefa ríkjum smá ráðrúm til að bregðast við, en annars séu þær það ekki.
„Dagarnir, vikurnar og mánuðirnir framundan verða þrekraun fyrir stöðuglyndi okkar, á trú okkar á vísindum og próf í samstöðu,“ sagði Tedros og bætti við að krísur á borð við þá sem nú ríður yfir dragi fram bæði það besta og versta í mannkyninu.