Hrun hefur átt sér stað á virði hlutabréfa í þeim kauphöllum heimsins sem hafa þegar opnað í dag. Ástralska vísitalan S&P/ASX 200 féll um 9,7 prósent, F.T.S.E. vísitalan sem mælir gengi 100 verðmætustu fyrirtækjanna í kauphöllinni í London hefur fallið um 6,4 prósent frá opnun markaða og hin þýska Dax-vísitala um 7,6 prósent. Nikkei vísitalan í Japan hefur fallið um 2,5 prósent.
Við opnun markaða í dag átti sambærilegt fall sér stað í íslensku Kauphöllinni. Úrvalsvísitala hennar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á markaði sem hafa mestan seljanleika, hefur þegar lækkað um sex prósent.
Líkt og við var búist hefur gengi bréfa í Icelandair lækkað mest, eða um 14,8 prósent í einungis tveggja milljóna króna viðskiptum. Virði bréfa í félaginu er nú 3,62 krónur á hlut.
Félagið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fram kom að fjárhagsleg áhrif vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar á starfsemi Icelandair Group væru enn óviss, en ljóst er að hún muni hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins. Það vinni nú að því að lágmarka þau áhrif, meðal annars með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum til að lækka launakostnað verulega.
Á síðustu dögum hefur Icelandair hins vegar dregið úr flugframboði um allt að 30 prósent. „Líklegt er að dregið verði enn frekar úr flugframboði á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi og staðan getur breyst hratt. Félagið heldur áfram að fylgjast grannt með stöðu mála og hefur gripið til ýmissa aðgerða í samráði við heilbrigðisyfirvöld til að tryggja heilsu og öryggi starfsfólks og farþega.
Óvissa ríkir um háannatíma sumarsins en félagið gerir að óbreyttu ráð fyrir að draga úr flugframboði um að minnsta kosti 25 prósent miðað við það sem áður hafði verið kynnt. Félagið mun þó leggja áherslu á að viðhalda þeim sveigjanleika sem þarf til að geta brugðist hratt við eftir því hvernig eftirspurn þróast.“
Öll félög sem viðskipti búið er að eiga viðskipti með hafa lækkað í dag. Fyrir utan Icelandair hefur mesta lækkunin verið með bréf í Skeljungi, sem er fyrst og síðast eldsneytissali, en bréf í félaginu hafa lækkað um 10,71 prósent. Þá hafa bréf í Iceland Seafood hríðfallið, eða um 11,7 prósent.