Sjötíu íbúar á Patreksfirði þurfa að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins, en um er að ræða hóp sem fór í skemmtiferð á Tenerife á vegum sjávarútvegsfyrirtækisins Odda, starfsmenn fyrirtækisins til lands og sjávar og maka þeirra.
Tuttugu manns úr hópnum komu til landsins í gær og ráðgert er að fimmtíu komi á morgun. Rúmlega 10 prósent íbúa á Patreksfirði verða þannig í sóttkví næstu tvær vikurnar, en bæjarbúar eru um 700 talsins.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur verið í sambandi við fararstjóra hópsins, sem segir alla einkennalausa. Haft verður samband við alla við komuna til landsins til að skerpa á fyrirmælum um sóttkví, samkvæmt færslu stofnunarinnar á Facebook.
Bannað að vera utandyra
Starfsmaður fyrirtækisins, sem enn er staddur á Tenerife, segir við Kjarnann að vinnsla hjá fyrirtækinu muni ekki leggjast alveg af þrátt fyrir að meirihluti starfsmanna sé á leið í sóttkví. Á annan tug starfsmanna fór ekki með í skemmtiferðina og munu þeir geta haldið uppi lágmarksvinnslu hjá fyrirtækinu.Nær algört útgöngubann er í gildi á Spáni og hefur sólþyrstum Patreksfirðingum sem enn eru á svæðinu verið bannað að fara út í sundlaugargarð, samkvæmt frásögn sama starfsmanns. Tæplega 8.000 smit hafa greinst í landinu til þessa, rúmlega hundrað þeirra á Kanaríeyjum.
Tæplega 300 manns hafa látist vegna COVID-19 á Spáni, en flest eru smitin í borgum á meginlandinu og langflest í Madríd og nágrenni eða á fjórða þúsund, samkvæmt frétt spænska blaðsins El País.
Mikilvægt að halda reglur um sóttkví
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða segir að ófærð hafi sett strik í ferðalög fyrri hópsins hér innanlands og að mögulegt sé að seinni hópurinn verði einnig í basli við að koma sér heim vegna veðurs.
„Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að reglur um sóttkví verði haldnar til að minnka líkur á smiti,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar. Engin staðfest COVID-19 smit hafa til þessa greinst á Vestfjörðum, en í umdæminu eru sem stendur 11 manns í sóttkví eftir, samkvæmt vefsíðunni covid.is. Fjöldi þeirra margfaldast því núna á næstu dögum.
70 Patreksfirðingar í sóttkví Stór hópur Patreksfirðinga sem verið hefur á ferðalagi á skilgreindu hættusvæði er nú...
Posted by Heilbrigðisstofnun Vestfjarða on Monday, March 16, 2020