„Það tekst ekki að halda faraldri í skefjum nema að við vinnum saman,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar var hann spurður um áhyggjur foreldra af áhrifum takmarkana á skólahaldi á atvinnu. Hann benti á að nú væru margar vikur fram undan þar sem líf okkar verður ekki með hefðbundnum hætti. „Ef allir gera eitthvað getum við saman gert mjög mikið.“
Ef atvinnurekendur slökuðu á mætingarkröfum myndi það skila mjög miklu í heildarmyndinni. Sagði Víðir að til mikils væri að vinna að komast hjá því að loka öllu samfélaginu.
Smit hafa nú greinst í þremur landshlutum utan höfuðborgarsvæðisins. Veiran er því farin að láta á sér kræla annars staðar sem kemur ekki á óvart, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. 180 hafa nú greinst með veiruna hér á landi. Benti Þórólfur á að nýjustu tölur væru stöðugt uppfærðar á covid.is.
Rannsóknir heilbrigðisyfirvalda sem og Íslenskrar erfðagreiningar benti til að ekki væri mikið samfélgssmit í gangi, „við vitum ekki hversu lengi það endist,“ sagði Þórólfur. Á 1-2 vikum gætu komið upp talsvert fleiri smit en greinst hafa fram að þessu.
Sagði Þórólfur að enn væri ekki hægt að segja með mikilli vissu hvernig faraldurinn kæmi til með að þróast en að ekki væri óraunhæft að ætla að hann myndi fjara út í lok maí eða júní. Enn ætti þó eftir að fá gleggri mynd af ástandinu svo hægt væri að áætla hvenær faraldurinn myndi ná hámarki.
„Við erum að skrítnum tímum, það er samkomubanni í gildi og röskun á samfélaginu,“ sagði Víðir. „Það tekur tíma að aðlagast þessu nýja normi, þessum nýja raunveruleika. Nú gildir að vera þolinmóð, umburðarlynd og sýna kærleika.“
Hvað er hjarðónæmi?
Þórólfur ræddi sérstaklega um hugtakið hjarðónæmi og sagði það komið úr bólusetningafræðum. Það væri mælikvarði á hversu marga þyrftu að bólusetja til að skapa ónæmi í samfélagi ef veira kemur upp svo hún næði ekki að þrífast og verða að faraldri. Hann sagði að hægt væri að reikna út stuðul hjarðónæmis og að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um nýju kórónuveiruna þyrfti að bólusetja um 60 til 70 prósent manna til að vernda þjóðina. Ekkert bóluefni er hins vegar til. „Þetta þýðir ekki að það sé okkar takmark að svo margir sýkist af veirunni,“ sagði Þórólfur með áherslu. „Okkar markmið er að takmarka útbreiðsluna og hægja á henni.“ Ekki væri vitað hversu margir kæmu til með að sýkjast, „vonandi sem fæstir og þá sérstaklega úr þessum viðkvæmu hópum.“
Spurður hvort að fólk ætti að hætta við að fara í til dæmis klippingu sagði Þórólfur að hver og einn þyrfti að vega og meta það, sérstaklega þeir sem eru í áhættuhópum. Almenningur ætti ekki endilega að sleppa því. Í sumum löndum hefur börum og hárgreiðslustofum verið lokað, svo dæmi séu tekin. „Við getum hugsanlega þurft að grípa til harðari aðgerða ef faraldurinn ætlar að þróast á rangan máta. Við getum hugsanlega gert ákveðnar tilslakanir ef allt virkar vel í samræmi við okkar áhættumat.“
Alma Möller landlæknir sagði að mikið mæddi nú á starfsmönnum Landspítalans en að þar væri þó engan bilbug að finna. Verið væri að undirbúa spítalann fyrir það að taka á móti fleiri sjúklingum með COVID-19 en einnig þyrfti að tryggja að önnur nauðsynleg þjónusta væri veitt. Aðeins þrjár skurðstofur af átta væru nú í notkun.
Á fundinum var einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. Í máli hans kom fram að ákveðið hefði verið að ráðast í aðgerðir til að hefta útbreiðslu COVID-19. Frá og með deginum í dag hafa framdyr allra strætisvagna verið lokaðar og farþegar beðnir um að ganga inn um mið- eða aftari dyr á vögnunum.
Þá eru farþegar hvattir að greiða fargjöld með strætókorti eða strætóappi, og halda korti eða síma á lofti í átt að vagnstjóranum, en ganga ekki fram í vagninn til að staðfesta fargjald við vagnstjóra. Þeir viðskiptavinir sem greiða með peningum eða strætómiðum geta þó gengið fram í vagninn til að greiða fargjaldið.
Nítján jákvæð sýni
Starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar er búið að taka 3.087 sýni í Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna í Turninum í Kópavogi. Þegar greind hafa verið 1.800 sýni hafa fundist 19 jákvæð. Enn bendir því allt til þess að innan við eitt prósent almennings hafi sýkst af COVID-19 og aðgerðir heilbrigðisyfirvalda séu að bera árangur, þar sem nýja kórónuveiran sé ekki orðin mjög útbreidd meðal almennings.
Gert er ráð fyrir að um þúsund niðurstöður til viðbótar verði tilbúnar í kvöld, og greind sýni verði þá alls 2800.
Alls hafa rúmlega 14.000 manns skráð sig í skimun fram til 27. mars. Annars slagið losna tímar eftir því sem afbókanir berast. Hægt er að fylgjast með hvort það eru lausir tímar á bokun.rannsokn.is.
Þrjú jákvæð sýni hafa þegar verið raðgreind, uppruni eins þeirra er úr manneskju sem var að koma frá vesturströnd Bandaríkjanna og er af tegundinni S sem er upprunalega veiran frá Asíu. Hin sýnin reyndust lítillega stökkbreytt og af gerðinni L, sem er algengari í Evrópu.
Von er á 100 sýnum til viðbótar úr raðgreiningu á morgun.
Tæplega 170 þúsund manns hafa nú greinst með veiruna í 148 löndum heimsins. Yfir 6.500 hafa látist, flestir í Kína, á Ítalíu og í Íran.