Almenningur í Bandaríkjunum hefur nú verið hvattur til þess að forðast allar samkomur þar sem tíu eða fleiri koma saman. Hvíta húsið gaf þessar leiðbeiningar út í gær, en á sunnudag höfðu heilbrigðisyfirvöld mælst til þess ekki kæmu fleiri en fimmtíu saman í einu.
Það er því stigmögnun í viðbragði bandarískra yfirvalda, sem virðast með hverjum deginum átta sig betur á því hvaða afleiðingar kórónuveiran gæti haft á bandarískt samfélag.
Til viðbótar við ráðleggingar alríkisstjórnarinnar hafa yfirvöld í einstaka ríkjum og borgum skipað fólki að halda sig heima eins og kostur er, til dæmis í nokkrum sýslum Kaliforníu-ríkis, þar sem útgöngubann er í gildi næstu þrjár vikurnar, frá og með deginum í dag og tekur til um sjö milljóna manna.
Stigvaxandi viðbrögð alríkisstjórnarinnar virðast, samkvæmt umfjöllun New York Times, vera byggð á nýrri skýrslu frá sérfræðingum við Imperial College í Lundúnum, sem spáðu því að faraldurinn myndi hafa meiri áhrif í Bandaríkjunum en í Bretlandi sökum þess að Bandaríkin væru landfræðilega mun stærri, sem þýddi að fleiri staðbundnir faraldrar færu af stað.
Einn af leiðtogum COVID-19-viðbragðsteymis Hvíta hússins, Dr. Deborah Birx, sagði á blaðamannafundi að breytt viðbrögð alríkisstjórnarinnar hefðu byggst á upplýsingum frá breskum rannsakendum.
Fjölþættar aðgerðir nauðsynlegar til að hlífa heilbrigðiskerfum
Skýrslan frá Imperial College var gerð opinber í gær, en bandarísk yfirvöld hafa haft vitneskju um það sem í henni kemur fram undanfarna viku og fengu uppkast að henni sent til sín um helgina.
Í skýrslunni segja sérfræðingarnir að ríki heims verði að grípa til fjölþættra aðgerða á sama tíma til þess að hefta útbreiðslu veirunnar eins og kostur er.
Svörtustu spár faraldsfræðinganna við Imperial College gerðu ráð fyrir því að allt að 2,2 milljónir Bandaríkjamanna gætu látið lífið ef faraldurinn fengi að geisa ómildaður þar í landi án þess að gripið yrði til varnaraðgerða.
„Kínverska veiran“
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur undanfarnar vikur virst í afneitun gagnvart alvarleika þeirrar vár sem útbreiðsla kórónuveirunnar er, virðist vera farinn að átta sig á raunveruleikanum, en er reyndar byrjaður að kalla kórónuveiruna „kínversku veiruna“.
The United States will be powerfully supporting those industries, like Airlines and others, that are particularly affected by the Chinese Virus. We will be stronger than ever before!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 16, 2020
Einungis rúmar tvær vikur eru síðan forsetinn sakaði demókrata um að nota kórónuveiruna sem „nýja blekkingu“ (e. new hoax) til þess að skaða hann pólitískt. Þann sjöunda þessa mánaðar sagði hann að hann vildi helst ekki að farþegum af skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, sem lónaði utan við strendur Kaliforníu, yrði hleypt í land þar sem hann væri ánægður með tölurnar yfir fjölda smitaðra í Bandaríkjunum eins og þær voru, en þá var fjöldi greindra smita nokkrir tugir.
Samkvæmt nýjustu uppfærslu frá bandarískum sóttvarnayfirvöldum hafa nú tæplega 3.500 tilfelli COVID-19 verið staðfest þar í landi.