Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir efast um að dánarmein ástralsk ferðamanns sem lést á Húsavík í gær hafi verið COVID-19. Þrátt fyrir að veiran sem veldur sjúkdómnum hafi fundist í manninum að honum látnum, væri það „fremur ólíklegt miðað við þau einkenni sem greint hefur verið frá,“ sagði Þórólfur á blaðamannafundi í Skógarhlíð í dag.
Andlát mannsins er til rannsóknar, en hann var á ferð um Ísland með eiginkonu sinni, þegar veikindi tóku sig skyndilega upp hjá honum. Hann lést skömmu eftir komuna á heilsugæsluna á Húsavík. Eiginkona hans er einnig smituð af COVID-19. Hún er í einangrun og 22 heilbrigðisstarfsmenn nyrðra eru í sóttkví.
Tvöhundruð tuttugu og fimm manns hafa greinst með COVID-19 smit hér á landi, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum. Þórólfur sagði á upplýsingafundi dagsins að framvegis yrðu tölurnar einungis uppfærðar einu sinni á dag, á vefnum covid.is, alltaf um hádegisbil.
Tuttugu og tvö smit hafa greinst í sýnatökum Íslenskrar erfðagreiningar sem hófust fyrir helgi og er hlutfall smitaðra sem þangað koma um 1 prósent, sem bendir til þess að lítið smit sé í samfélaginu almennt.
Veirufræðideild Landspítala hefur greint 198 smit, en þar eru greind sýni úr þeim sem koma frá áhættusvæðum erlendis, hafa verið í sóttkví vegna samskipta við einstaklinga með staðfest smit og annarra sem sýna einkenni COVID-19. Hlutfall sýktra úr þeim hópi er um 10 prósent.
Þórólfur greindi frá því að nú væru fjórir sjúklingar á Landspítala með staðfest COVID-19 smit, þar af tveir á gjörgæslu. Hvorugur þeirra er í öndunarvél.
Gæti orðið hörgull á veirupinnum á næstunni
Sóttvarnalæknir sagði að fyrirséð væri að það gæti á næstunni orðið hörgull á veirupinnum, sem notaðir eru til að skima fyrir COVID-19. Unnið væri að því að reyna að fá fleiri pinna til landsins, en eftirspurnin á heimsvísu væri mjög mikil, eins og gæfi að skilja.
Ekki er þó útlit fyrir að takmarka þurfi hve mörg sýni séu tekin hér á landi og yfirvöld vilja, að sögn Þórólfs, halda áfram að taka sýni úr stærra mengi en til dæmis bæði Svíar og Danir, sem taka eingöngu sýni úr þeim sem þurfa að leggjast inn á spítala vegna einkenna.
Þórólfur sagði Íslendinga vilja halda áfram að „prófa víða“, leita og finna smitaða, beita sóttkví, þar sem það væri enn talin vænlegasta leiðin til að hefta útbreiðsluna á þessum tímapunkti. Það kynni þó að breytast og væri metið dag frá degi.