„Þetta ástand er ekki eilíft. Það skiptir hins vegar máli hvernig við höldum á spilunum hversu langvarandi það verður. Þess vegna skiptir máli að við gerum allt það sem við getum til þess að tryggja að við komumst í gegnum skaflinn, þannig að þegar þessu stríði er lokið, þá verðum við fljót að spyrna við. “
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Kastljósi í kvöld þar sem hún ræddi meðal annars þær efnahagslegu afleiðingar sem eru að teiknast upp vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Aðspurð hvernig íslenska ríkið væri í stakk búið til að takast á við þessa stöðu og hvenær væri von á að sjá þær aðgerðir sem gripið verði til benti Katrín á að fyrstu aðgerðir hefðu verið kynntar fyrir nákvæmlega viku síðan. „Mér finnst eins og það sé svona ár síðan, það er svo mikið búið að gerast.“
Katrín staðfesti að frekari efnahagsaðgerðir væru í undirbúningi, en Kjarninn greindi frá því í gær að slíkar yrðu væntanlega kynntar í vikunni. Heimildir Kjarnans herma að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi boðað það á fundi með þingflokksformönnum í dag að svokallaður bandormur frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, væri væntanlegur í lok viku inn á þingið. Slíkur bandormur er samansafn breytinga á ýmsum lögum og viðmælendur Kjarnans eru sammála um að hann verði lagður fram eftir að aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar verður kynntur. Því sé líklegt að það styttist í kynningu á honum.
Ætla að ná fram fernum markmiðum
Katrín sagði að stjórnvöld þyrfti að gera fernt með aðgerðum sínum. „Stóru markmiðin í þeim eru í fyrsta lagi að tryggja lífsafkomu fólks. Alþingi var í dag að ræða frumvarp um hlutabætur, það mun taka breytingum.[...]Við erum að tryggja að lífsafkoma fólks sé tryggð og að það geti haldið ráðningarsambandinu við sinn vinnuveitanda.
Allir skynja alvarleikann
Forsætisráðherra sagði að Icelandair væri að horfa framan í aðstæður þar sem flug sé nánast að leggjast af. En þrengingarnar sem væru framundan væru ekki einungis bundnar við ferðaþjónustu. Til að mynda værum við að flytja út fisk á veitingastaði sem fæstir væru nú opnir á okkar helstu mörkuðum.
Þegar Katrín var spurð af því hvort að það yrði pólitískur óstöðugleiki hér í nánustu framtíð sagði hún það vera algjört val hvort að svo yrði. „Það verða gerð mistök í þessu ferðalagi eins og öðru.“ Hún hafi í dag fundað með forsvarsmönnum launafólks og atvinnulífs í dag og að það hafi verið dýrmæt samtöl. Allir skynji alvöru málsins, líka fulltrúar stjórnarandstöðunnar.