Landssamtök lífeyrissjóða hafa sent frá sér hvatningu til allra lífeyrissjóða landsins til að halda að sér höndum um gjaldeyriskaup á næstu þremur mánuðum. „Þykir mikilvægt að sjóðirnir leggi sitt af mörkum við að styðja við íslenskt samfélag og stuðla þannig að stöðugleika þegar gefur á bátinn.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem formaður stjórnar Landssamtakana, Guðrún Hafsteinsdóttir, skrifar undir og var send í kjölfar fundar með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra í dag þar sem fjallað var um þá óvissu sem eru nú til staðar í efnahagsmálum Íslands.
Í tilkynningunni segir enn fremur að mikill viðskiptaafgangur síðustu ára hafi gefið lífeyrissjóðum landsins svigrúm til þess að fjárfesta erlendis og ná fram áhættudreifingu í eignasafni sínu. „Í ljósi þess að útflutningstekjur landsins munu fyrirsjáanlega dragast saman tímabundið telja Landssamtök lífeyrissjóða það eðlilegt að lífeyrissjóðir standi ekki að gjaldeyriskaupum á næstu mánuðum. Sjóðirnir eru í eigu almennings og því mikilvægt að þeir sýni ríka samfélagslega ábyrgð þegar kemur til fjárfestinga og viðbragða í okkar samfélagi á óvissutímum.“
Viðbúið er að eignasafn lífeyrissjóðanna, hvort sem er hér heima eða erlendis, muni taka á sig mikla lækkun vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 er að valda á efnahagskerfi heimsins, en stór hluti eigna þeirra eru markaðsverðbréf. Allir markaðir hafa lækkað mikið síðustu daga og vikur.
Íslenska krónan hefur veikst hratt á þessu ári, sérstaklega síðastliðnar vikur, þar sem útflæði á fjármunum er mun meira en innflæði, aðallega vegna þess að ferðamenn eru ekki lengur að skila þjónustutekjum inn í hagkerfið. Krónan hefur alls veikst um 9,8 prósent gagnvart evru síðastliðinn mánuð og 6,37 prósent gagnvart Bandaríkjadal.