Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, segir að ekki liggi fyrir hvort tryggingagjaldið verði fellt niður vegna þess ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum landsins vegna COVID-19 faraldursins. Hann segir það þó ekki útilokað.
Frá þessu greindi ráðherrann á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna hvort vænta mætti þess að tryggingagjaldið yrði fellt niður út árið, hvort beinn efnahagslegur stuðningur kæmi beint til fyrirtækja og hvaða áform væru uppi varðandi stuðning til einyrkja.
Bjarni bendir á að gjalddögum vegna tryggingagjalds hafi verið frestað og segir hann að það geti komið til þess á síðari stigum að „frestuðu tryggingagjaldi, sem menn telja ekki raunhæft að innheimta, verði þá breytt í einhvers konar stuðning.“
Segir einyrkja njóta góðs af aðgerðum
Ráðherrann telur þó tryggingagjaldsleiðina mega sín lítils í sjálfu sér við hliðina á annarri stórri aðgerð sem rædd verður síðar í dag. „Hér á þinginu verður rætt mál þar sem ríkið er að bjóðast til þess hreinlega að taka fólk raunverulega á launaskrá sína. Að fyrirtæki haldi ráðningasambandinu í gildi en ríkið taki að sér að greiða stóran hlut launanna í gegnum stuðningskerfi. Það er ekkert annað en beinn stuðningur og hann mun líka ná til einyrkja,“ segir ráðherrann.
Hann greinir frá því að einyrkjar, eða sjálfstætt starfandi, muni njóta góðs af þessum aðgerðum. „Það verður að fara vel ofan í saumana á þessu úrræði sem að mér sýnist á öllu miðað við það hvernig mál eru að þróast undanfarna sólarhringa að það geti þurft að útvíkka úrræðið eins og það er kynnt hér sem sérstakt frumvarp.“