Síminn hefur ákveðið að fella niður áskriftargjöld að sjónvarpsstöðinni Síminn Sport, sem sýnir ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Öllum leikjum í deildinni hefur verið frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og ekki er ljóst hvenær boltinn rúllar á ný.
Síminn segir í tölvupósti til áskrifenda að enska boltanum að þeir þurfi ekkert að aðhafast né hafa „óþarfa áhyggjur af áskriftinni“, hún muni einfaldlega verða virk á ný þegar enska úrvalsdeildin fer aftur af stað, hvenær sem það verður.
Enska knattspyrnusambandið hefur gefið það út að deildinni verði að minnsta kosti frestað fram í byrjun apríl, en sennilegt er að frestunin verði mun lengri, vegna aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.