Sviðsmyndir sérfræðinga sem hafa unnið spá fyrir yfirvöld um hvernig veirufaraldurinn sem nú geisar muni þróast segja að, samkvæmt bestu spá, verði hápunkturinn faraldursins í kringum 10. apríl. Spáin gerir þó ráð fyrir að þessu geti skeikað um fimm daga í hvora áttina.
Þetta sagði Alma Möller landlæknir í sérstökum þætti um COVID-19 sjúkdóminn og veiruna sem veldur honum á RÚV í kvöld.
Þar sagði hún einnig að sjúklingar sem þurfi að liggja inni á sjúkrahúsi geti, þegar kúfinum er náð, verið um 40 að jafnaði á hverjum tíma en að fjöldi þeirra geti farið upp í 110 manns.
Nóg sé til af öndunarvélum, því fyrir utan þær 26 sem Landspítalinn hefur yfir að ráða, og þær þrjár sem séu staðsettar á Akureyri, þá séu fleiri til í sjúkrabílum og víðar. Auk þess sé unnið að því að fá fleiri vélar.
Í þættinum voru Alma og Viðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, spurð út í ummæli Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, sem hefur farið mikinn í gagnrýni á viðbrögð stjórnvalda við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Ummælin, sem féllu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun, voru þannig að Frosti sagði að hingað hefðu „útlendingum frá hættusvæðum [verið] hleypt óskimuðum inn í landið til þess að koma smiti inn í samfélagið.“
Bæði Alma og Víðir höfnuðu þessu alfarið. Víðir benti á að Íslendingar væru að gera mun meira en flestir í að rekja öll smit. Ástæða þess að ekki hafi verið gripið til þeirra ráða að loka landinu fyrir ferðamönnum væri sú að þeir væru mun ólíklegri til að smita hérlendis.
Af þeim 250 smitum sem hafa greinst eru einungis tveir ferðamenn og engin annars stigs smit hafa verið rakin til ferðamanna. Víðir benti á að nú væri ferðamönnum auk þess að fækka verulega, einfaldlega vegna þess að önnur lönd væru að loka sínum landamærum og ferðalög að leggjast af. Því væri þetta ekki vandamál.
Flest smitin sem greinst hefðu verið hérlendis komu frá Íslendingum sem smituðust í skíðaferðum erlendis og báru veiruna með sér hingað heim.