Þeir sem eru búsettir á Íslandi og eru þátttakendur í íslensku samfélagi er hættara við að smita út frá sér hér á landi ef þeir veikjast heldur en ferðamenn. Þetta gildir bæði um íslenska ríkisborgara og erlenda sem eru búsettir hér. Þetta kemur fram í svari Almannavarna við fyrirspurn Kjarnans.
Þá segir að ef erlendir ríkisborgarar sem eru hér á ferðalagi gefi sig fram vegna veikinda eða tengsla við veika einstaklinga með COVID-19 verði þeir einnig settir í einangrun eða sóttkví.
Fram kom í fréttum í dag að sóttvarnalæknir hefði ákveðið að útvíkka enn frekar hááhættusvæðin vegna COVID-19.
Frá og með fimmtudeginum 19. mars 2020 er Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi og koma til landsins skylt að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til hvaðan þeir eru að koma. Undanþegnir þessu er flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa.