Fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafa ákveðið að grípa til frekari aðgerða vegna efnahagslegra áhrif af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Vextir hafa verið lækkaðir í annað sinn á skömmum tíma og nú niður í 1,75 prósent, eða um 0,5 prósentustig. Það þýðir að stýrivextir hafa því lækkað um 2,75 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst.
Auk þess hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því núll prósent.
Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndarinnar segir að hún muni ekki hækka sveiflujöfnunaraukann á næstu tólf mánuðum og verður hann því óbreyttur samkvæmt þeim reglum sem um hann gilda í að minnsta kosti tvö ár, fram á fyrsta ársfjórðung 2022.
Aflétting kröfu um
sveiflujöfnunarauka mun auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili
og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að
öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna, eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni.
Þar segir enn fremur: „Útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur haft mikil áhrif á samfélög, leitt til minnkandi efnahagsumsvifa og versnandi fjármálaskilyrða víða um heim. Óvissa ríkir um hversu mikil áhrifin verða og hversu lengi þau munu vara en ljóst er að efnahagshorfur á Íslandi hafa versnað til muna, a.m.k. til skamms tíma.“
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands segir að með vaxtalækkuninni sé enn slakað frekar á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagshorfur hafa versnað enn meira í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið hefur verið til hér á landi og annars staðar í heiminum til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. „Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn.“