Íslensk erfðagreining og sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafa samanlagt tekið 6.510 sýni vegna nýju kórónuveirunnar. 250 smit eru staðfest og eru allir þeir einstaklingar í einangrun. Í sóttkví eru 2.422 en 457 hafa lokið sóttkví.
Á vefnum Covid.is má sjá að nær algjörlega jafnmargar konur og karlar hafa smitast. Enn eru flest smitin rakin til útlanda eða rúmlega 51%, tæplega 27% eru innanlands smit og ekki er vitað um uppruna 22% smitanna sem hér hafa greinst.
Langflest smit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu eða 224. Þar eru nú 1.782 í sóttkví. Næstflest smitin hafa greinst á Suðurlandi eða sextán og þar eru 376 í sóttkví, m.a. nemendur við grunnskólann í Hveragerði og starfsfólk og nemendur við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Flestir hinna smituðu eru á aldrinum 40-49 ára og næststærsti hópurinn er á aldrinum 50-59 ára. Tvö börn yngri en níu ára hafa greinst með smit.
Þrír liggja á sjúkrahúsi vegna COVID-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur.