Þrír starfsmenn skrifstofu Alþingis eru nú smitaðir af COVID-19, en tveir voru greindir með smit í dag. Á þriðjudag greindist einn starfsmaður þingsins með smit og höfðu þessir starfsmenn verð í sóttkví síðan þá, vegna samskipta við þann sem fyrst greindist.
Allir starfsmennirnir þrír hafa starfsstöð í Skúlahúsi við Kirkjustræti og eftir því sem best er vitað er ekki smit að finna í fleiri starfsstöðvum þingsins, samkvæmt tilkynningu á vef Alþingis.
Annað starfsfólk hefur ekki verið sett í sóttkví af smitrakningarteymi Almannavarna í framhaldi af þessu smiti, en þeim sem hafa verið í samskiptum við starfsmennina hefur verið greint frá stöðunni.
Fram kemur á vef þingsins að nokkrir þingmenn og starfsfólk þingsins séu í sjálfskipaðri sóttkví eða smitvari vegna aðstæðna, ýmist af persónulegum heilsufarsástæðum eða vegna heilsu einhvers nákomins.
Fyrr í vikunni hafði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, greint frá því að hann væri kominn í sjálfskipaða sóttkví eftir að hafa fengið mann á heimili sitt á miðvikudag í síðustu viku sem síðar greindist með veiruna.