„Ég kom heim á þriðjudaginn. Mér leist ekkert á þetta, hvernig bresk stjórnvöld voru að taka á málum þar í landi. Þeirra viðbrögð einkennast af rosalega mikilli værukærð og seinagangi og þau virðast ekki vera alveg í tengslum við raunveruleikann, allavega ekki þann raunveruleika sem önnur lönd skynja,“ segir Bjarki Þór Grönfeldt, doktorsnemi í stjórnmálasálfræði við háskólann í Kent í Bretlandi, í samtali við Kjarnann.
Hann er einn fjölmargra íslenskra námsmanna erlendis sem hafa orðið fyrir áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Margir þeirra eru komnir heim til Íslands. Veiran hefur mikil áhrif í skólakerfinu eins og annars staðar og Bjarki segir hóp tíu til fimmtán námsmanna í Bretlandi sem hann er reglulega í samskiptum við vera í svipuðum sporum og hann sjálfur.
„Ég held að það séu meira og minna allir komnir heim, eða með plön um að fara heim,“ segir Bjarki, sem situr í stjórn SÍNE, Samtaka íslenskra námsmanna erlendis, um þennan hóp félaga sinna í breskum háskólum. „Ég ætlaði bara að bíða og sjá, en þegar það varð ljóst í hádeginu á mánudaginn að allir þeir fundir og annað slíkt sem ég átti að vera viðstaddur á næstu vikum féllu niður ákvað ég að fljúga heim.“
„Keep calm and carry on“ eigi ekki við um þessa ógn
Hann segist hafa orðið var við værukærð vegna veirunnar í Bretlandi, bæði af hálfu yfirvalda sem og almennings. Í Bretlandi er þannig hálfgerður „blitz spirit“ ríkjandi, segir Bjarki, og vísar þar til þess æðruleysis sem breskur almenningur er sagður hafa sýnt þegar þýski flugherinn gerði loftárás eftir loftárás á breskar borgir snemma í síðari heimsstyrjöld. Fólk reyndi þá að halda lífi sínu gangandi eins og venjulega þrátt fyrir að ógn steðjaði að, „bara „keep calm and carry on“, sem er kannski ekki alveg viðeigandi þegar þú ert að eiga við ósýnilegan óvin,“ að mati Bjarka.
Bjarki segist hafa orðið þess var að í Canterbury þar sem hann býr hafi krár enn verið þétt setnar skömmu áður en hann hélt heim á leið og það viðhorf hafi heyrst ansi víða, sem hann hafi ekki heyrt hér á landi, að stjórnvöld væru að gera of mikið veður út af veirunni. Skilaboð um að viðhafa faðmflótta (e. social distancing) hafi ekki náð eyrum allra.
Á sama tíma hefðu bresk stjórnvöld verið að gera lítið í samanburði við nágrannaþjóðirnar á meginlandi Evrópu. Grunnskólar landsins lokuðu þó í gær um óákveðinn tíma og börum og veitingastöðum hefur einnig verið skipað að loka, frá og með deginum í dag. Aukinn þungi er þannig að færast í viðbrögð breskra yfirvalda núna.
Háskólarnir fengu þó engin miðlæg skilaboð um að loka, þó að allir séu þeir nú búnir að færa kennsluna alfarið yfir á netið. En það var hverjum og einum skóla í sjálfsvald sett. Bjarki segir að ýmislegt virðist spila inn í þá ákvarðanatöku, þannig hafa verið nærri mánaðarlöng verkföll í breskum háskólum á önninni til þessa og stjórnendur viljað reyna að halda skólunum opnum eins lengi og hægt væri af þeim sökum, svo önnin færi ekki alveg í vaskinn. Breska háskólakerfið sé enda mjög peningadrifið.
„Ég er heppinn, mitt nám er svo sem bara rannsóknir, þannig að ég get sinnt því þannig séð hvar sem er ef ég kem mér upp aðstöðu til að lesa og skrifa, en þetta horfir allt öðruvísi við þeim sem eru í verklegu námi og þurfa að sækja tíma. Hver og einn skóli verður bara að taka á því og ég veit að þetta er meira og minna allt í uppnámi, öll próf og annað slíkt. Það er bara risa spursmál, hvernig verður með prófin og annað,“ segir Bjarki og bætir við að búið sé að fella niður hin svokölluðu „A-levels“ próf, inntökuprófin í bresku háskólana, sem áttu að fara fram í vor.
Námsmenn utan Evrópu hafa að fleiru að huga
Almennt telur Bjarki að heimsfaraldurinn sé að hafa töluvert mikil áhrif á stöðu íslenskra námsmanna erlendis og skilur að marigr vilji komast heim í öryggi, upplifi þeir öryggi sleysi ytra, líkt og hann sjálfur. En það er ekki einfalt fyrir alla að yfirgefa landið þar sem þeir eru í námi, þrátt fyrir að skólakerfið stoppi. Sumir þurfa að hafa áhyggjur af vegabréfsáritunum, til dæmis þeir sem eru í námi í Bandaríkjunum, Asíu eða Ástralíu.
„Í Bretlandi til dæmis eru flestir þeir sem koma utan Evrópu á svokölluðu „Tier 4 Visa“, sem er mjög strangt, þannig að það er mjög takmarkað hversu mikið þú mátt fara úr landi og hversu mikið þú mátt missa úr náminu á meðan því stendur. En það var gefið út núna síðustu helgi að innanríkisráðuneytið myndi gefa undanþágu núna, fyrir þá sem vilja fara heim til sín á meðan þetta ástand gengur yfir,“ segir Bjarki.
LÍN hefur gert ýmislegt til þess að létta námsmönnum lífið í þessum makalausu aðstæðum. Þannig hafa námsmenn erlendis fengið vilyrði fyrir auka ferðaláni, þannig að hægt sé að fá lánað fyrir auka ferð heim til Íslands á meðan faraldurinn geisar og einnig er búið að slaka á kröfum um staðfestingu á námsframvindu, sem Bjarki segist ánægður með.
Hann segir að tryggingamál gætu vafist fyrir einhverjum námsmönnum og segir eðlilegt að þau sem eru í námi í Bandaríkjunum eða Ástralíu hafi einhverjar áhyggjur af því hvort þau séu nógu vel tryggð í dvalarlandinu, fari svo að þau þurfi að leita til heilbrigðiskerfisins vegna COVID-19 sýkingar.
„Það gerði enginn ráð fyrir heimsfaraldri, held ég, þegar fólk var að skipuleggja námið sitt,“ segir Bjarki.