Staðfest smit af nýju kórónuveirunni eru nú orðin 409 hér á
landi. Þau voru 330 í gær. 4.166 manns eru í sóttkví víða um land og sjö liggja
á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Greindum smitum hefur því fjölgað um tæp áttatíu á einum sólarhring. Sama gerðits í gær á milli daga.
Þetta kemur fram á vefnum Covid.is.
Uppruni um 35% smita er óþekktur. 36% þeirra eru rakin til útlanda og um 28% eru svokölluð innanlandssmit. Þetta eru töluverð breyting frá því gær þar sem helmingur smita var enn rakinn til útlanda.
Tæplega 9.200 sýni hafa verið tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fimmtán smit hafa greinst síðasta sólarhringinn hjá Íslenskri erfðagreiningu sem er mesti fjöldi hingað til.
Fólk er nú í sóttkví í öllum landshlutum. Í heildina hafa 577 manns lokið sóttkví.
Búast má við 1.000 smitum í lok maí
Samkvæmt spálíkani sem vísindamenn frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa gert, um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi, má búast við því að fyrir lok maímánaðar hafi um 1.000 manns á Íslandi greinst með COVID-19.
Svartsýnustu spár gera ráð fyrir því að fjöldi greindra smita gæti þó orðið yfir 2.000 talsins á þeim tímapunkti.
Hver eru einkenni COVID-19?
Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu og MERS. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu. Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.
Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn þessara hópa gegn smiti.