Landspítalinn hefur sett sig í samband við íslenska læknanema sem eru lokaári í námi erlendis, en staddir hér á landi, um að koma til starfa og létta undir með spítalanum, nú þegar álag vegna COVID-19 faraldursins er að aukast.
Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir á Landspítala fjallaði um það á Facebook í gær að hinar Norðurlandaþjóðirnar væru farnar að biðla til lækna- og hjúkrunarnema um að ráða sig inn á sjúkrahús vegna faraldursins og sagði að ágætt væri að huga að því hérlendis að virkja alla krafta með því að ráða inn læknanema við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. Nú virðist það í undirbúningi.
Hrafnhildur Edda Magnúsdóttir, formaður Félags íslenskra læknanema í Ungverjalandi, segir við Kjarnann að hópur íslenskra nema sem eru á lokaári í námi þar í landi hafi nú þegar fengið boð um að koma til starfa.
Þessi hópur sjötta árs nema er þegar staddur á Íslandi, en búið er að fella niður allt verklegt nám læknanema í Ungverjalandi ótímabundið til þess að minnka smithættu og því lítið fyrir sjötta árs nemana, sem eru einungis í verklegu námi, að gera ytra.
Nú eru hinar Norðurlandaþjóðirnar farnar að biðla beint til lækna- og hjúkrunarnema að ráða sig í vinnu á sjúkrahúsum...
Posted by Tomas Gudbjartsson on Saturday, March 21, 2020
„Við erum öll af vilja gerð að hjálpa, líka á 4. og 5. ári, svo lengi sem námsframvinda okkar mun standast. Hér í Ungverjalandi hafa þeir nú þegar fyrir tæpri viku beðið læknanema á klínísku árunum að gerast sjálfboðaliðar gegn faraldrinum,“ segir Hrafnhildur, en sjálf er hún á fjórða ári í námi sínu við háskólann í Debrecen.
Hún segir að sjötta árs nemarnir horfi margir fram á að fresta útskrift sinni úr skólanum, sem átti að vera í upphafi sumars. „Þetta er stór stund að ljúka læknanámi og yrði súrt epli að bíta í að fagna þannig áfanga, ef útskriftarathöfn væri haldin eftir sóttvarnareglum og enginn gæti mætt í athöfnina. En ólíklegt er úr þessu að útskriftir verði á næstunni, ef enginn getur tekið praktík eða embættispróf hér útaf faraldrinum,“ segir Hrafnhildur Edda.
Hún segir að stundum á síðustu árum hafi skotið upp kollinum umræða um að íslensku samfélagi vanti ekki allan þann starfskraft sem snýr til baka úr læknanámi erlendis.
„Við sem erum hér í námi vonum að eftir að þessum faraldri lýkur, að bæði heilbrigðisstéttir og auðlindin sem námsmenn erlendis sækja í sarpinn, sé metin að verðleikum,“ segir Hrafnhildur Edda, sem hefur tekið þátt í hagsmunabaráttu nemenda gagnvart LÍN.
Hún segir læknanemana í Debrecen vera í töluverðri óvissu, þar sem enn er stefnt á að halda lokapróf í vor. Fólk vilji ekki eiga á hættu að falla á ári ef svo fari að ekki reynist mögulegt að komast aftur til Ungverjalands í vor til þess að taka lokapróf, en ríkið lokaði í síðustu viku landamærum sínum fyrir öðrum en ungverskum ríkisborgurum og óvissa er um hve lengi sú lokun mun vara, eins og svo margt annað.
Námið í Ungverjalandi er kostnaðarsamt og greiða íslensku nemendurnir fyrir úr eigin vasa og hætta meira að segja að fá skólagjaldalán frá LÍN þegar námið er hálfnað, þar sem þá er heildarupphæðin komin upp í þak skólagjaldalána hjá LÍN, upphæð sem hefur staðið í stað allt frá árinu 2007. Svo það væri fjárhagslegt högg að falla á ári fyrir að fara til Íslands að hjálpa til í heilbrigðiskerfinu.
„Því miður er aðalfaktorinn í þessari ákvarðanatöku um hvort við gætum farið heim og hjálpað, án þess að það setji strik í okkar eigin reikning, hvort og hvenær próf verða haldin eða ekki, sem er óstaðfest sökum óvissuástandsins,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hún sé ekki bjartsýn á að sú ákvörðun verði tekin alveg á næstunni þrátt fyrir að hagsmunafélög nemenda hafi pressað á skólayfirvöld um að gera það.
Orbán hefur kennt innlytjendum um útbreiðsluna
Samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Ungverjalandi höfðu 103 tilfelli verið greind þar í landi í gær, er búið var að greina 3.007 sýni. Fjórir hafa látist og yfirvöld segja að dreifingin innanlands hafi nú náð „öðru stigi“ og ljóst sé að COVID-19 sé farið að ganga á milli hópa fólks.
Viktor Orbán forsætisráðherra landsins hefur kennt útlendingum um útbreiðslu veirunnar og sagt að það séu „augljós“ og „rökrétt“ tengsl á milli ólöglegra innflytjenda og útbreiðslu veirunnar og bætti við að það setti Ungverjaland í vænlega stöðu til þess að verjast veirunni, þar sem landið hefði nú þegar girt fyrir komu flóttafólks. Hrafnhildur segir að þessi orðræða forsetans hafi ekki komið sér á óvart.
„Hins vegar hefur ungverska læknaráðið verið alveg mótfallið því sem ríkisstjórnin var að gera,“ segir Hrafnhildur og bætir við að undanfarna viku eða svo hafi ríkisstjórnin farið að grípa til þeirra aðgerða sem læknaráðið mælir með, fellt niður skólahald og sett á samkomubann, auk þess að loka landamærunum og hafa sér spítalastofnanir fyrir COVID-19 sjúklinga.