Staðfest smit af nýju kórónuveirunni eru nú orðin 588 hér á landi. Í gær voru þau 568 og hefur þeim því fjölgað um 20 á rúmlega einum sólarhring. Í dag eru 6.816 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 6.340. Tæplega 1.200 manns hafa lokið sóttkví.
Nú liggja fjórtán á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins. Á síðunni Covid.is kemur fram að 36 hafi náð sér af sjúkdómnum.
Flest smit eru nú svokölluð innanlandssmit eða 249. Smit sem rekja má beint til veru erlendis eru 195 og smit af óþekktum uppruna eru 144.
Í dag hafa 10.301 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins, þar af 183 síðasta sólarhringinn. Öll voru þau tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Færri sýni hafa verið tekin síðustu sólarhringa en dagana á undan vegna yfirvofandi skorts á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að vonast væri til að sending af pinnum komi til landsins í þessari viku.
Hann sagði einnig að tölur yfir smit hér á landi gætu sveiflast milli daga af mörgum ástæðum. Ein þeirra væri einfaldlega fámennið á Íslandi. Nokkur hópsmit síðustu daga gætu hafa skýrt mikla aukningu í fjölda smita í gær og fyrradag.
2.500-6.000 gætu sýkst fyrir apríllok
Spá yfir fjölda tilfella og álag á heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur breyst verulega frá því 19. mars þar sem faraldurinn er í veldisvexti og frá þeim tíma hefur fjöldi tilfella allt að því tvöfaldast.
Þetta sýnir spálíkan sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað í samstarfi við Landlæknisembættið, Landspítala og sóttvarnayfirvöld vegna COVID-19 faraldursins.
Helstu niðurstöður spálíkansins með gögnum til og með 22. mars eru eftirfarandi:
Búist er við því að fyrir lok apríl 2020 hafi líklega um 2.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð tæplega 6.000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Búist er við að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki á fyrstu vikum apríl, og verði sennilega nær 2.000 manns, en gæti náð tæplega 4.500 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Búist er við að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni um 170 manns þarfnast aðhlynningar í innlögn á sjúkrahúsi, en gæti náð um 400 manns samkvæmt svartsýnustu spá.