Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 6,1 prósentustigi frá síðustu könnun MMR og mælist nú með 27,4 prósent fylgi. Það er mesta fylgi sem hann hefur mælst með frá því sumarið 2017, áður en uppreist æru-málið kom upp, sem leiddi til kosninga þá um haustið.
Stuðningur við ríkisstjórnina stóreykst líka og mælist nú 52,9 prósent. Hann var 38,8 prósent í síðustu könnun sem MMR framkvæmdi í febrúar og ljóst að neyðarástandið sem ríkið vegna COVID-19 sjúkdómsins hefur aukið stuðning við ríkisstjórnina verulega, eða um 36 prósent á einum mánuði. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst svona mikil frá því fyrir tæpum tveimur árum, eða í maí 2018.
Samfylkingin mælist næst stærsti flokkurinn með 14,7 prósent fylgi, sem er aðeins minna en fyrir mánuði síðan, og Píratar eru líka á svipuðu róli með 10,2 prósent. Sömu sögu er að sega af Viðreisn, sem tapar 0,8 prósentustigum og mælist með 9,7 prósent fylgi.
Miðflokkurinn tapar umtalsverðu fylgi milli kannanna og mælist nú með tíu prósent fylgi. Fyrir mánuði síðan sögðust 12,6 prósent landsmanna ætla að kjósa hann. Vinstri græn standa nánast í stað milli mánaða og eru með 9,8 prósent fylgi, Framsókn bætir lítillega við sig og nýtur nú stuðnings 8,1 prósent kjósenda.
Sósíalistaflokkur Íslands stendur í stað frá síðustu könnun með 4,7 prósent fylgi og 3,7 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa Flokk fólksins.
Mikið stökk og mest á kostnað Miðflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn hafði mælst mjög illa í könnunum um töluvert skeið og langt undir kjörfylgi hans, sem var 25,2 prósent í haustkosningunum 2017. Fylgið síðustu mánuði hafði þannig mælst frá 18,1 til 21,3 prósent. Því er stökkið sem átti sér stað nú umtalsvert og fylgið mælist 2,2 prósentustigum yfir kjörfylgi.
Þrír aðrir flokkar mælast með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum. Samfylkingin er með 2,6 prósentustiga meira fylgi, Píratar með eitt prósentustig meira en þá og Viðreisn með þrjú prósentustig. Samanlagt hefur þessi frjálslynda miðjublokk því bætt við sig 7,6 prósentum frá síðustu kosningum.
Stökk Sjálfstæðisflokksins virðist bitna mest á Miðflokknum sem tapar 2,6 prósentustigum milli mánaða og mælist nú með minna fylgi en hann fékk í kosningunum 2017.
Vinstri græn eru enn 7,1 prósentustigi frá kjörfylgi sínu og Framsóknarflokkurinn þyrfti að bæta við sig 2,6 prósentustigum til að vera á sama stað og haustið 2017.
Könnunin var framkvæmd 18. - 20. mars 2020 og var heildarfjöldi svarenda 1.034 einstaklingar, 18 ára og eldri.