Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur greindur með COVID-19. Í stöðuuppfærslu á Facebook segist hann hafa farið í sjálfskipaða sóttkví fyrir rúmri viku eftir að hann fór að hósta. Á föstudag hafi hann svo farið í prufu og niðurstaða úr henni hafi legið fyrir á laugardag.
Smári segir í stöðuuppfærslunni að hann sé þokkalega hress, einkenni sjúkdómsins séu mjög væg, hóstinn sem hann var með mestmegnis farinn og hitinn sem fylgdi hefði aldrei orðið mikill. „Önnur einkenni koma og fara ─ en ég er í stuttu máli ótrúlega heppinn með hvað þetta virðist vægt. Nú er ég kominn í tveggja vikna einangrun, en ég mun reyna að sinna þingstörfum eftir því sem ég get í gegnum fjarfundi og símtöl á meðan.“
Smári segist ekki vita hvar hann smitaðist eða hvernig og að það verði líklega aldrei vitað. „Smitrakningarteymið sendi á mig skjal og gaf mér viðmiðunardagsetningu eftir samtal, og það ætti að vera búið að hafa samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist mig. Hvað Alþingi varðar hafa aðgerðirnar þar til að halda fólki í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum verið til þess að mitt smit ætti ekki að hafa teljandi áhrif á störfin þar. Ekki það, það munu eflaust vera fleiri eftir því sem á líður.“
Jæja. Það kom að því. Fyrir rúmri viku fór ég í sjálfskipaða sóttkví eftir að ég fór að fá hósta. Það kom á daginn í...
Posted by Smári McCarthy on Sunday, March 22, 2020
Á fimmtudag var greint frá því að þrír starfsmenn skrifstofu Alþingis væru smitaðir af COVID-19, en tveir voru greindir með smit þann dag. Á þriðjudag í síðustu viku greindist einn starfsmaður þingsins með smit og höfðu hinir tveir starfsmennirnir verð í sóttkví síðan þá, vegna samskipta við þann sem fyrst greindist.
Alls eru nú sex starfsmenn Alþingi með COVID-19. Öll starfa í sama húsinu, Skúlahúsi. Hert hefur verið á reglum Alþingis til að hindra frekari smit.
Fram kom á vef þingsins í lok síðustu viku að nokkrir þingmenn og starfsfólk þingsins væru í sjálfskipaðri sóttkví eða smitvari vegna aðstæðna, ýmist af persónulegum heilsufarsástæðum eða vegna heilsu einhvers nákomins.
Fyrr í síðustu viku hafði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, greint frá því að hann væri kominn í sjálfskipaða sóttkví eftir að hafa fengið mann á heimili sitt sem síðar greindist með veiruna.