Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti í kvöld að nær algjört útgöngubann tæki gildi í landinu nú þegar. Núna á fólk í Bretlandi að vera heima, með örfáum undantekningum. Einungis tveir mega koma saman á almannafæri, nema þeir búi á sama heimili.
Johnson ávarpaði bresku þjóðina kl. 20:30 og var ómyrkur í máli. „Þið verðið að vera heima,“ sagði forsætisráðherrann.
Frá og með þessari stundu mega íbúar í Bretlandi einungis fara út til þess að versla helstu nauðsynjavörur, eins sjaldan og unnt er. Einnig má fólk fara út að hreyfa sig einu sinni á dag, en þá einsamalt eða með öðrum sem búa á sama heimili.
„Þú átt ekki að hitta vini. Ef vinir þínir biðja þig um að hitta sig, þá ættir þú að segja nei,“ sagði Johnson og bætti við að ef fólk færi ekki að reglum hefði lögregla heimild til þess að beita sektum eða til þess að leysa upp samkomur.
Important UpdatePlease join me for an important update on #coronavirus #StayHomeSaveLives
Posted by Boris Johnson on Monday, March 23, 2020
Fólk má fara út til þess að sækja sér læknisþjónustu og einnig má fara út til þess að hlúa að öðrum. Svo má fólk ferðast til vinnu, en einungis í þeim tilfellum þar sem það er algjörlega nauðsynlegt og vinnan getur ekki farið fram að heiman.
Ríkisstjórnin hefur þannig ákveðið að öllum verslunum sem selja annað en ýtrustu nauðsynjavörur, matvöru og lyf, verði lokað umsvifalaust. Engar trúarathafnir nema jarðarfarir verða leyfðar.
Johnson hafði verið tregur til að grípa til þess ráðs að setja á útgöngubann, en hafði áður veitt almenningi tilmæli um að halda sig heima og koma þannig í veg fyrir smit og vara við því að ef ekki yrði farið að ráðum yfirvalda þyrfti að grípa til harðari aðgerða.
Tilmælin ein og sér virtust þó ekki ná eyrum almennings og um helgina kom fjöldi fólks saman víða um Bretland til ýmissa viðburða.
This was earlier on at Broadway Market. Pretty irresponsible. Is no one reading the news from Italy? Why do people need to wait for Boris to tell them not to fuck up the NHS? This is Hackney FFS - Labour stronghold that appaz loves our NHS #Covid_19 #CoronaCrisis #StayAtHome pic.twitter.com/MXypwa97Pm
— Heydon Prowse (@HeydonProwse) March 21, 2020