Um 650 manns hafa skráð sig í bakvarðarsveit heilbrigðiskerfisins vegna COVID-19 faraldursins. Alma Möller landlæknir fagnaði þessu sérstaklega á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hún sagði nýjar stéttir að bjóða fram krafta sína, m.a. náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu og sjúkraþjálfara. Þá geta lækna- og hjúkrunarfræðinemar nú skráð sig í sveitina og hafa viðbrögðin frá þeim hópum þegar verið góð.
Alma hvatti svo íslenska þjóð til dáða með þessum orðum: „Íslendingar eru dugleg og upplýst þjóð. Við eigum frábærlega menntað og duglegt heilbrigðisstarfsfólk. Við erum með góða innviði. Við kunnum að standa saman þegar á þarf að halda og ef við getum ekki tekist á við þessa veiru – hver þá?“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á fundinum að 60 prósent nýrra smita síðasta sólarhringinn hafi greinst hjá fólki sem þegar er í sóttkví. Þetta segir hann ánægjulegt og styðji enn fremur þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi sem felast í því að greina fljótt, einangra smitaða og beita sóttkví.
Á Landspítalanum liggja nú ellefu sjúklingar vegna COVID-19. Tveir eru á gjörgæslu en hvorugur þeirra er í öndunarvél.
Sextíu ný smit greindust síðasta sólarhringinn sem er um 16 prósent af öllum sýnum sem tekin voru á sama tímabili. Þórólfur sagði að erfitt væri að sjá það á þessari stundu hvort að viðbúið væri að verstu spár um útbreiðslu muni rætast eða þær bestu. Sveiflan í smitum væri töluverð á milli daga.
Færri sýni hafa verið tekin síðustu daga en dagana á undan og engin sýni hafa verið tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu í tvo sólarhringa. Þetta skýrist af vöntun á sýnatökupinnum. Þórólfur sagðist binda vonir við það að fleiri pinnar komi til landsins í vikunni en benti einnig á að verið væri að kanna gæði sýnatökupinna sem stoðtækjafyrirtækið Össur á. „Ef það reynist vel þá er hægt að gefa aftur í í sýnatökum.“
Haldið áfram að þvo og spritta
Þórólfur og Alma hvöttu landsmenn áfram að taka þátt í samfélagslegum aðgerðum sem felast m.a. í ítarlegu hreinlæti, handþvotti og sprittun sem og að halda fjarlægð á milli sín og vernda viðkvæma hópa. „Þetta er ákveðin áskorun, að halda þetta út, en ég er viss um að ef við gerum þetta og virðum þá mun okkur takast vel.“
Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um samgöngubann í faraldrinum. Þórólfur segir að slík bönn myndu að öllum líkindum skila mjög litlu. Það sýni reynslan og það sýni fræðin. Ströngustu samgöngubönn myndu aðeins fresta faraldri um nokkra daga eða vikur. En vandinn væri þá ekki úr sögunni. Þegar opnað yrði aftur og veiran ekki útdauð gæti faraldurinn blossað upp að nýju. Því séu yfirvöld ekki með samgöngubann á teikniborðinu.
Samkvæmt spálíkaninu nú og þróun faraldra almennt þá tekur það faraldur 6-8 vikur að ganga yfir. Spurningin nú er hins vegar sú hvað toppurinn verður hár og hversu vel tekst að teygja á faraldrinum, sagði Þórólfur. Því er spáð að toppnum verði náð um miðjan apríl. „En þetta getur teygst alveg inn í maí og hugsanlega lengur en það.“