Kortavelta erlenda ferðamanna síðastliðinn föstudag var 23 prósent af því sem hún nam á sama degi í fyrra. Veltan hefur dregist skarpt saman í marsmánuði en fyrstu daga hans var hún allt að 90 prósent af því sem hún var á sama degi árið 2019. Frá 12. mars hefur hún dregist saman dag frá degi og var 20. mars, líkt og áður sagði, 23 prósent af því sem hún var þann dag á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að erfiðara sé að meta hvaða áhrif yfirstandandi ástand, sem er tilkomið vegna efnahagslegra áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, hafi á innlenda kortaveltu Íslendinga. „Í annarri viku mars var veltan 82 prósent af veltu síðasta árs. En á þeim tíma féllu inn dagarnir þar sem samkomubann var kynnt. Velta í dagvöruverslun var ríflega tvöfalt meiri dagana 12. og 13. mars en sömu daga í fyrra en þá daga fjölluðu fjölmiðlar um að landinn væri að hamstra mat.“
Þá greindi Icelandair frá því í tilkynningu í gær að félagið væri einungis að fljúga 14 prósent af flugáætlun sinni. Búist er við því að farþegaflug til landsins muni að mestu eða jafnvel öllu leyti á næstu dögum eða vikum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í viðtali á RÚV í gær, að samkvæmt sviðsmyndum sem unnið væri með, og væru í stanslausri uppfærslum liti út fyrir að Ísland gæti verið á leið í svipaða niðursveiflu og eftir bankahrunið, eða sex til sjö prósent samdrátt.
Þá benda sviðsmyndir stjórnvalda til þess að atvinnuleysi verði að meðaltali um átta prósent yfir helsta kúfinn, sem þýðir að toppurinn verður hærri en það. Meðaltalið verður því í kringum 15 þúsund manns.