Kennarasamband Íslands (KÍ) leggst alfarið gegn því að frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila verði samþykkt óbreytt. Það telur að þegar hættuástand sé geti skapast öflugur hvati fyrir stjórnmálamenn að ganga lengra en réttlætanlegt sé til að mæta þeirri ógn sem að stafar. Með frumvarpinu séu stjórnvöld að auka stórkostlega völd sín yfir opinberum starfsmönnum.
Í frumvarpinu, sem var lagt fram á mánudag og til stendur að afgreiða hratt, felst að tryggja á lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi á hættustundu. Opinberir aðilar samkvæmt því eru ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu. Tilefni þess er sagt vera það að á hættustundu sé „mikilvægt að opinberir aðilar hafi svigrúm til þess að nýta mannauð sinn í þau verkefni sem njóta forgangs hverju sinni. Þá geta starfsskyldur, starfsaðstæður og starfsstöðvar starfsmanna þurft að taka tímabundnum breytingum[...]Undanfarið hafa opinberir aðilar markvisst unnið að uppfærslu á viðbragðsáætlunum meðal annars vegna snjóflóðahættu, eldgosahættu og farsóttarinnar COVID-19. Í mörgum viðbragðsáætlunum er tekið fram að heimilt sé að færa fólk milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Við þá vinnu hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi eftir þörfum. Slík heimild þarf að vera til staðar óháð efni viðbragðsáætlana þar sem taka þarf ákvarðanir hratt og örugglega á hættustundu.“
Hafa áhyggjur af öflugum hvata til að ganga of langt
Í umsögn Kennarasambandsins um frumvarpið segir að þegar hættuástand skapist geti skapast öflugur hvati fyrir stjórnmálamenn að ganga lengra en réttlætanlegt sé til að mæta þeirri ógn sem að stafar. „Við fyrstu sýn fær KÍ ekki séð að ógnin sem stafar af COVID-19 sé þess eðlis að ábyrg stjórnvöld geti ekki mætt henni innan ramma núgildandi laga. Það kann að vera einfaldara og ódýrara að haga viðbrögðum stjórnvalda við COVID-19 fáist rúmar valdheimildir umfram það sem nú er. Það er hinsvegar ekkert einfalt eða ódýrt við grundvallarrétt- og skyldur.“
Öllum takmörkunum á frelsi fólks, jafnt á neyðartímum og öðrum, þurfi að setja skýrar skorður. Ýmsar valdheimildir séu í lögum um almannavarnir sem takmarki grundvallarréttindi borgaranna eða afnema jafnvel með öllu. Þannig geti fólk verið kvatt til starfa eða krafið um að láta af hendi eigur sínar vegna hættuástands.
Margar þeirra spurninga sem vakni upp séu því mjög alvarlegar og það hafi mikla eftirmála sé ekki tekið tillit til þeirra áður en framkvæmd á grundvelli lagabreytingar sem þeirrar sem lögð er til verður að veruleika. „Að sinni verður ekki lagt mat á það að hvaða leyti sveigjanleiki starfa á hættutímum skuli vera viðfangsefni laga um almannavarnir og að hvaða leyti viðfangsefni annarra laga og kjarasamninga. Það er þó óneitanlega óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að stjórnvöld hyggist auka stórkostlega völd sín yfir opinberum starfsmönnum á sama tíma og þau virðast eiga í gríðarlegum erfiðleikum með kjarasamningagerðina.“
Ýmis félög styðja frumvarpið
Fleiri hafa skilað inn umsögnum um frumvarpið og eru ekki jafn neikvæðir, þótt varnaglar séu slegnir. BSRB segist til að mynda ekki gera athugasemdir við frumvarpið en telji þó rétt að árétta að það leggi „ ríka áherslu á að um neyðarúrræði sé að ræða, sem komi ekki til nema brýna þörf krefji.“
Alþýðusamband Íslands gerir ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en vekur athygli á að samkvæmt texta laganna og greinargerðar sé gert ráð fyrir því að starfsmenn skuli njóta óbreyttra launakjara við breyttar starfsskyldur. „Hins vegar eru lögin og greinargerðin þögul um þá stöðu sem upp kann að koma sé starfsmanni gert skylt að sinna starfsskyldum sem tilheyra starfi sem betur er launað skv. kjarasamningum sem það starf sem hann var ráðinn til. Taka þyrfti af allan vafa um túlkun laganna í þessu efni við þinglega meðferð málsins.“
Samband íslenskra sveitarfélaga, sem kom að samningu frumvarpsins ásamt dómsmálaráðuneytinu, styður frumvarpið eindregið og segir í minnisblaði að þjóðin standi frammi fyrir nýjum veruleika. Hann sé þannig að ekki sé hægt að sjá hann fyrir í kjarasamningum eða löggjöf og því þurfi kerfið að vera sveigjanlegt.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og benda sérstaklega á mikilvægi þess gagnvart þjónustu við fatlað fólk.