Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að þó nokkuð margar umsóknir um undanþágur frá samkomubanni hafi borist. Almannavarnadeild og sóttvarnalæknir gefa umsagnir um þær en það er svo heilbrigðisráðuneytið sem tekur ákvörðun um að veita þær eða ekki.
Undanþágur hafa m.a. verið veittar matvælaframleiðslufyrirtækjum sem eru mikilvæg „til að halda okkur á lífi, það er að segja, við þurfum að fá að borða. Sagði Víðir að fyrirtæki sem fái undanþágur þurfi að uppfylla mjög ströng skilyrði, m.a. hvað varðar aðskilnað starfsmanna og varnarbúnaði starfsfólks.
Hann sagði að töluvert mörgum umsóknum um undanþágur hafi verið hafnað.
Hert samkomubann tók gildi á miðnætti. „Þetta hefur gengið ágætlega,“ sagði Víðir um síðustu klukkustundir. „Það er bara mjög mikilvægt, og það er það sem við erum að leggja áherslu á, að fólk fari eftir þessu. Við erum ekkert að grínast með þetta. Það er full alvara á bak við þessar tölur. Þess vegna verður fólk að taka þetta alvarlega.“
Það er ekkert í samfélaginu sem virkar eins og venjulega
Víðir sagði að fjöldi undanþágubeiðna frá samkomubanni sýni að það séu „ekki alveg allir“ með almannavörnum í baráttunni.
„Nú verða menn bara að spyrja sig: Af hverju erum við að þessu? Ef við horfum á löndin í kringum okkur, þar sem aðeins tveir mega koma saman, sem er mun lengra en við erum að ganga. Nú verða allir að taka þessu alvarlega og fara eftir þessum leiðbeiningum sem við erum að gefa út. Þetta er erfitt og snúið fyrir mörg fyrirtæki. Mörg fyrirtæki munu ekki getað starfað en það er ekkert í samfélaginu að virka eins og það gerir venjulega. Menn geta ekki sett þetta þannig niður fyrir sér að það muni eitthvað virka eins og venjulega. Þetta er það sem menn þurfa að huga að núna.“
Hvað fellst í hertu samkomubanni?
Hert samkomubann nær til allra skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli fólks sé yfir tveir metrar.
Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru til dæmis:
- Ráðstefnur, málþing, fundir og hliðstæðir viðburðir. Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.
- Trúarathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
- Aðrir sambærilegir viðburðir með 20 einstaklingum eða fleiri.
Eftirfarandi starfsemi er óheimil og verður lokað frá og með þriðjudeginum 24. mars:
- Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaðir, spilasalir, spilakassar og söfn.
- Starfsemi þar sem nálægð er mikil er bönnuð og gildir það t.a.m. um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og aðra slíka starfsemi. Sjúkraþjálfun sem er mikilvæg vegna endurhæfingar er heimil með skilyrðum um öflugar sóttvarnaráðstafanir.
- Allt íþróttastarf barna og fullorðinna þar sem nálægð er minni en tveir metrar og einhver sameiginleg notkun á búnaði er fyrir hendi er bönnuð, þar með taldar skíðalyftur.
Frekari upplýsingar er að finna hér.