Samkvæmt nýrri spá um fjölda tilfella og álag á heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir að á meðan faraldurinn gangi yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi greinast með COVID-19. Þetta eru nokkuð lægri tölur en spáð var síðast enda hafa færri smit greinst síðustu daga.
Þetta er niðurstaða spálíkans sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað í samstarfi við Landlæknisembættið, Landspítala og sóttvarnayfirvöld vegna COVID-19 faraldursins.
Samkvæmt spánni sem var birt á mánudag og byggði á gögnum til og með 22. mars var búist við því að fyrir lok apríl hefðu líklega um 2.500 manns verið greindir með COVID-19, en tæplega 6.000 samkvæmt svartsýnustu spá. Þá var búist við því að faraldurinn næði hámarki á fyrstu vikum apríl.
Nú er gert ráð fyrir að hámarki verði náð í fyrstu viku apríl. Þá er því nú spáð að á tíma faraldursins muni um þrettán einstaklingar veikjast alvarlega en 23 samkvæmt svartsýnustu spá.
Hafa ber í huga að aldursdreifing smitaðra einstaklinga á Íslandi er hagstæð enn sem komið er. Ef fjöldi smita eykst meðal aldraðra einstaklinga mun það hafa veruleg áhrif á spálíkanið í átt að auknu álagi á heilbrigðiskerfið.
Helstu niðurstöður spálíkansins með gögnum til og með 24. mars eru eftirfarandi:
- Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti náð 1.600 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð hátt í 160 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnasta spá er 80 einstaklingar.
- Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.
- Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 5 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.
Fyrstu niðurstöður spálíkansins voru kynntar á fundi með almannavörnum 18. mars. Þá var gert ráð fyrir því að allt að 1.200 manns gætu greinst með COVID-19 þegar faraldurinn næði hámarki hér á landi og að fyrir lok maí gæti talan náð rúmlega 2.000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Greiningarvinnan mun halda áfram og spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum, segir á vefnum covid.hi.is. „Hafa ber í huga að vegna fámennis geta tölurnar um fjölda greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hefur áhrif á niðurstöður spálíkansins. Líkanið verður þó stöðugra eftir því sem á líður.“