Upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina Fossa markaða hf.. voru almennt ekki metnir af fyrirtækinu með sjálfstæðum hætti, í tveimur tilvikum sem könnuð voru höfðu viðskiptamenn ekki sannað á sér deili við upphaf samningssambands, áhættumat Fossa á rekstri sínum og viðskiptum fullnægði ekki kröfum og fyrirtækið hafði ekki sett sér skjalfesta stefnu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Þetta er niðurstaða athugunar Fjármálaeftirlitsins á aðgerðum Fossa gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem hófst í ágúst 2019 og lauk í febrúar 2020. Niðurstaðan var birt í lok síðustu viku.
Að teknu tilliti til þeirra gagna og upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið aflaði við athugunina taldi það ekki tilefni til að gera athugasemdir við reglulegt eftirlit Fossa, eftirlitskerfi vegna einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, kerfi vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða eða hvernig staðið var við að uppfylla rannsóknar- og tilkynningarskyldu.
Fossar markaðir hafa verið leiðandi í að koma með erlenda fjárfesta til Íslands á undanförnum árum.
Brotalamir hjá öllum bönkunum
Kjarninn greindi frá því 22. desember síðastliðinn að Fjármálaeftirlitið hefði birt niðurstöður sínar um peningaþvættisvarnir allra íslensku viðskiptabankanna; Landsbankans, Íslandsbanka, Arion banka og Kviku banka. Þar komu fram brotalamir í varnarvirki þeirra allra. Á meðal þess sem eftirlitið gerði athugasemdir við var mat allra íslensku viðskiptabankanna á upplýsingum um raunverulega eigendur fjármuna eða félaga sem eru, eða hafa verið, í viðskiptum við þá.
Í tilfelli Landsbankans, sem er í ríkiseigu, lauk athugun í október það ár en niðurstaðan þrátt fyrir það ekki birt fyrr en tveimur mánuðum síðar. Athugun á Kviku banka og Íslandsbanka í desember á síðasta ári.
Aðgerðir eftir áfelli FATF
Alþjóðlegur vinnuhópur um um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Financial Action Task Force (FATF), skilaði kolsvartri úttekt á frammistöðu Íslands í málaflokknum í apríl 2018. Í kjölfarið var gripið til mikils átaks sem í fólst að uppfæra lög, regluverk og framfylgni eftirlits með peningaþvættis hérlendis.
Allt kom fyrir ekki og á endanum reyndust aðgerðirnar ekki nægjanlegar. Ísland var sett á gráan lista fyrir að bregðast ekki nægilega vel við fjölmörgum athugasemdum samtakanna um brotalamir í vörnum gegn peningaþvætti á Íslandi í október 2019. Ísland var áfram á þeim lista eftir fund samtakanna í febrúar en hann verður næst endurskoðaður að óbreyttu í júní.
Ein af athugasemdunum sem FATF gerði sneri að því að ekki þurfti að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi. Enda felst í því að þekkja ekki viðskiptavininn, að þekkja ekki hvaðan peningarnir hans koma. Lög voru uppfærð í kjölfarið og frestur gefin til 1. mars síðastliðinn um að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu vel sú skráning gekk, enda kórónuveiran og afleiðingar hennar búin að taka yfir allt samfélagið síðastliðnar vikur.
Í kjölfar þess að FATF gerði úttekt á Íslandi þá hóf Fjármálaeftirlitið að gera nýjar athuganir á íslenskum fjármálafyrirtækjum og getu þeirra til að verjast peningaþvætti. Á meðal þeirra voru Fossar markaðir og stóru viðskiptabankarnir fjórir.