Hópur fólks, sem vildi gera eitthvað uppbyggilegt á meðan heimsfaraldur geisar, hefur sett í loftið vefsíðuna Hlaupum kringum hnöttinn. Þar getur fólk tekið þátt í sameiginlegu hlaupi í kringum hnöttinn, með því að skrá inn kílómetrana sem það hleypur eða gengur á degi hverjum.
Hver og einn þátttakandi í leiknum, sem fólk tengist í gegnum Facebook, getur sett inn sinn kílómetrafjölda einu sinni á dag og þannig lagt sín lóð á vogarskálarnar og hjálpað til við að komast allan hringinn í kringum jörðina. Síðan hefur verið í loftinu frá því í gær og þegar þetta er skrifað eru þátttakendur þegar búnir að hlaupa samanlagt alla leiðina til Glasgow í Skotlandi.
Þórlindur Kjartansson er einn þeirra sem stendur að baki síðunni. Hann segir við Kjarnann að það sé nauðsynlegt á þessum tímum – og verði enn nauðsynlegra þegar líður á samkomubannið – að fólk hugi að líkamlegri og andlegri heilsu og drífi sig út úr húsi til hreyfingar þrátt fyrir allt það sem gengur á.
En hvað gerist þegar það verður búið að hlaupa í kringum jörðina?
„Það kemur í ljós, en það er búið að ákveða það. Það klárlega verður mjög áhugavert að komast að því!“ segir Þórlindur, en leikurinn verður í loftinu þar til neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 faraldursins hér á landi verður aflétt.