Sýnatökupinnar frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, sem hafa verið í prófun hjá Íslenskri erfðagreiningu, virka ekki. Frá þessu er greint á RÚV en Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, staðfesti þetta við fréttastofu. Hún segir í samtalið við RÚV þetta vera vonbrigði og að nú sé verið að bíða eftir öðrum sendingum.
Fram kom á blaðamannafundi Almannavarna í gær að færri sýni hefðu verið tekin síðustu daga en dagana á undan og engin sýni hefðu verið tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu í tvo sólarhringa. Þetta skýrðist af vöntun á sýnatökupinnum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist binda vonir við það að fleiri pinnar kæmu til landsins í vikunni en benti einnig á að verið væri að kanna gæði sýnatökupinna sem stoðtækjafyrirtækið Össur á. „Ef það reynist vel þá er hægt að gefa aftur í í sýnatökum,“ sagði hann en nú hefur komið í ljós að pinnarnir virka ekki.
Sextíu ný smit greindust í fyrradag sem er um 16 prósent af öllum sýnum sem tekin voru á sama tímabili. Þórólfur sagði að erfitt væri að sjá það á þessari stundu hvort að viðbúið væri að verstu spár um útbreiðslu myndu rætast eða þær bestu. Sveiflan í smitum væri töluverð á milli daga.
Þórólfur greindi enn fremur frá því á fundinum í gær að 60 prósent nýrra smita hefðu greinst hjá fólki sem þegar er í sóttkví. Þetta sagði hann ánægjulegt og styddi enn fremur þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi sem felast í því að greina fljótt, einangra smitaða og beita sóttkví.