17% sýna sem tekin voru á veirufræðideild Landspítalans vegna kórónuveirunnar síðasta sólarhringinn voru jákvæð. Aðeins 0,2% sýna Íslenskrar erfðagreiningar reyndust jákvæð.
Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sagði hann lágt hlutfall hjá Íslenskri erfðagreiningu sé spegill á samfélagssmit að einhverju leyti.
Hann greindi einnig frá því að nú liggja fimmtán manns á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Tveir eru á gjörgæslu Landspítalans og annar þeirra er í öndunarvél.
Síðasta sólarhringinn hafa 89 einstaklingar greinst með veiruna. Staðfest smit í landinu eru því orðin 737. Af nýju smitunum voru 57% greind hjá fólki sem var þegar í sóttkví. Þetta sagði Þórólfur undirstrika mikilvægi þess úrræðis sem beitt hefur verið hér á landi allt frá upphafi faraldursins.
Margir nýir pinnar
Tvö þúsund nýir sýnatökupinnar komu til landsins í dag og von er á fleiri pinnum í vikunni. Þórólfur sagði að enn væri ekki útséð með að pinnar sem stoðtækjafyrirtækið Össur er með á lager geti nýst við rannsóknirnar. Niðurstöður úr öryggisprófum á þeim eru væntanlegar innan skamms. „Þannig að við erum ekki að horfa upp á skort á pinnum og vonandi verður það ekki í framtíðinni.“
Veirufræðideildin fær alla pinnana til notkunar.
Smitrakningarappið á lokametrunum
Smitrakningarapp er í undirbúningi á vegum landlæknis. Hönnun þess er á lokastigi og í kjölfarið fer fram prófun í litlum hópum. Sambærileg öpp hafa verið nýtt hjá Suður-Kóreumönnum og í Singapúr. Allt er málið unnið í góðri samvinnu við Persónuvernd. Fólk getur skráð sig í appið og er hugmyndin að rekja ferðir fólks ef á þarf að halda.
Sóttvarnalæknir ítrekaði að smit meðal barna yngri en tíu ára er enn mjög lítið og sömu sögu er að segja frá öðrum Norðurlöndum. Í bréfi sem sent var í dag hvöttu hann og landlæknir foreldra heilbrigðra barna til að senda þau í skólann.
Ekki markmiðið að búa til sýkingar hjá ákveðnum hópum
Á fundinum var hann spurður hvort að með því að hvetja til þess að börn færu í skólann væri verið að reyna að ná hjarðónæmi með þeim hætti. „Smit sem verður í samfélaginu mun skapa hjarðónæmi,“ sagði Þórólfur. „Við getum ekki [fullkomlega] komið í veg fyrir smit. Það er kannski hægt með mjög hörðum aðgerðum, það myndi kosta mjög mikið, og myndi þýða það að við myndum fá faraldurinn aftur til okkar. Það er engin sérstök stefna hjá okkur að búa til sýkingar úti í samfélaginu hjá ákveðnum hópum. Alls ekki. Við erum að reyna að hægja á og minnka faraldurinn eins og mögulegt er og við erum að vernda þá sem eru viðkvæmir fyrir, loka þá sem mest af. Það er aðalmarkmiðið. Á sama tíma vitum við að við fáum hjarðónæmi sem mun hjálpa okkur síðar meir. En það er ekki markmiðið í sjálfu sér.“
Bætti hann við að Sóttvarnastofnun Evrópu væri ekki að mæla sérstaklega með skólalokunum.