Viðskiptaráð vill að íslenska ríkið horfi til aðgerða annarra ríkja til að bregðast við yfirstandandi efnahagssamdrætti og að það geri frekar meira en minna. Á meðal þeirra aðgerða sem Viðskiptaráð bendir á í þessu samhengi eru bein fjárframlög til fyrirtækja úr ríkissjóði sem yrðu ekki endurgreiðanleg. Með öðrum orðum: peningagjafir úr ríkissjóði beint til fyrirtækja sem uppfylla ákveðin skilyrði.
Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að lögfesta aðgerðarpakka hennar í efnahagsmálum segir að sum ríki í kringum okkur séu að „átta sig á því að það sé ekki endilega skynsamlegasta leiðin til að styðja við fyrirtæki að láta þau skuldsetja sig meira heldur þurfi beinni og markvissari stuðning“.
Undir umsögnina skrifar Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Benda á Danmörku og Noreg
Í Danmörku muni til að mynda ákveðin fjárhæð renna beint til fyrirtækja í formi styrkja upp á 25 til 80 prósent af föstum kostnaði þeirra. Þessir styrkir séu í boði til þeirra fyrirtækja sem missa meira en 40 prósent eða meira af tekjur sínum. Kostnaður við þessa aðgerð er áætlaður tvö prósent af landsframleiðslu Danmerkur. Þá fái sjálfstætt starfandi og fyrirtæki með tíu eða færri starfsmenn sem sjá tekjur minnka um meira en 30 prósent allt að 75 prósent af tekjum sínum greiddar frá ríkinu. „Þessir styrkir eru í boði í þrjá mánuði og eru ekki lán eða frestanir, heldur bein fjárframlög frá ríkinu til fyrirtækja vegna bráðavanda kórónuveirunnar,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.
„Á sama tíma og Viðskiptaráð fagnar þeim tillögum sem eru fram komnar bindur ráðið vonir við frekari aðgerðir af hálfu hins opinbera sem felur í sér eftirgjöf á opinberum gjöldum og tryggja að fjárfestingargeta atvinnulífsins sé varin eftir fremsta megni. Það er að mati ráðsins ekki skynsamlegt til lengri tíma að stefna fólki og fyrirtækjum í of mikla skuldsetningu vegna atburða sem birtast okkur eins og þessar óviðjafnanlegu náttúruhamfarir.“
Vilja 18 milljarða til fyrirtækja með afnámi tryggingagjalds
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga og verði að lögum ,en hvetur sérstaklega til þess að tryggingagjaldið verði einnig afnumið tímabundið og að frestur verði veittur á greiðslu virðisaukaskatts.
Það telur að tímabundið afnám tryggingagjaldsins væri hnitmiðuð ráðstöfun sem auðveldi fyrirtækjum að sporna gegn atvinnuleysi. „Áætlaðar heildartekjur ríkisins af tryggingagjaldi samkvæmt fjárlögum eru 102 ma. kr. Beinn kostnaður ríkisins af afnámi tryggingagjalds í þrjá mánuði (mars, apríl og maí) næmi 18 ma. króna.“
Þá vill Viðskiptaráð að skilum á virðisaukaskatti verði almennt fresta í heild eða hluta. Það sé leið sem stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð, Belgíu og Frakklandi hafi gripið til.
Í umsögninni segir Viðskiptaráð að það telji ekki nægilega langt gengið með frestun gjalddaga fasteignaskatta. „Sum sveitarfélög gætu viljað ganga lengra eða nýta sértækari leiðir og mikilvægt er að þeim sé eftirlátið frelsi til þess við þessar aðstæður. Sveitarstjórnir þurfa að geta gengið eins langt og þörf er á eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið út að þeir muni gera, en það er mikilvægt að mati Viðskiptaráðs að sveitarfélögin stígi inn í og afnemi fasteignaskatt tímabundið. Nauðsynlegt er að löggjafinn búi svo um að sveitarfélögunum geti að grípa til slíkra aðgerða.“