Alls var 164 starfsmönnum Bláa lónsins sagt upp í dag. Auk þess ætlar fyrirtækið að bjóða yfir 400 starfsmönnum af þeim 600 sem eftir verða að nýta sér hlutabótaleiðina sem er hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda, og gerir það að verkum að ríkið greiðir allt að 75 prósent launa þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Frá þessu er greint á mbl.is. Þar segir að í tilkynningu sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sendi til starfsfólks fyrr í dag segi hann aðgerðina þungbæra en óhjákvæmilega í ljósi aðstæðna. Bláa lónið lokaði fyrir þremur dögum síðað og verður lokað til 30. apríl hið minnsta.
Rekstur Bláa lónsins hefur gengið afar vel síðustu ár. Á aðalfundi Bláa lónsins í fyrra var samþykkt að greiða út um 30 milljónir evra, þá alls tæplega 4,3 milljarða króna, í arðgreiðslu vegna frammistöðu ársins 2018. Það var næstum því tvöfalt hærri greiðsla en var greidd út árið 2018 í arð, þegar slík greiðsla nam 16 milljónum evra, eða tæplega 2,3 milljarðar króna á núvirði.
Í ársreikningi Bláa lónsins fyrir árið 2018 kom fram að rekstrartekjur fyrirtækisins hefðu verið 122,6 milljónir evra, um 17,4 milljarðar króna miðað við gengið þegar síðasti aðalfundur fór fram, á því ári. Það var aukning um 20 prósent frá árinu 2017 þegar þær voru 102,3 milljónir evra, eða um 14,5 milljarðar króna á gengi síðasta sumars.
Alls nam hagnaður Bláa lónsins á árinu 2018 26,4 milljónum evra, um 3,7 milljörðum króna. Hann dróst lítillega saman milli ára en hann var 31 milljón evra, um 4,4 milljarðar króna á gengi síðasta sumars, árið 2017. Það þýðir að arðgreiðslan sem samþykkt var á aðalfundi fyrirtækisins í fyrrasumar var hærri en sem nam hagnaði Bláa lónsins á árinu 2018.
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,1 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, árið 2018.
Næst stærsti eigandinn er Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, sem keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu bókfærðu virði hlutarins í maí síðastliðnum, eða á 15 milljarða króna.
Salan á hlutnum í Bláa Lóninu fór fram eftir að Jarðvarmi slhf., félag í eigu sömu lífeyrissjóða, hafði eignast allt hlutafé í HS Orku skömmu áður. Miðað við þessi viðskipti þá var Bláa lónið metið í heild sinni á 50 milljarða króna.
Þriðji stærsti eigandinn með 8,7 prósent hlut er Keila ehf., en stærsti eigandi þess er áðurnefnd Hvatning.
Fjórðu og fimmtu stærstu hluthafarnir er félögin Hofgarðar ehf. og Saffron ehf. með sitt hvorn 6,2 prósent eignarhlut. Hofgarðar er eignarhaldsfélag í eigu Helga Magnússonar, aðaleiganda fjölmiðlafyrirtækisins Torgs, en Helgi er einnig stjórnarformaður Bláa lónsins.
Saffron er í eigu Sigurðar Arngrímssonar, sem á líka hluti í Torgi.
Bogmaðurinn ehf., félag í eigu Ágústu Johnson er einnig á meðal stærstu eigenda með 2,4 prósent eignarhlut. Ágústa er eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.