Staðfest smit af kórónuveirunni eru nú orðin 802 hér á landi. Í gær voru þau 737 og hefur þeim því fjölgað um 65 á einum sólarhring. Í dag eru 9.889 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 9.013.
Tæplega 2.500 manns hafa lokið sóttkví.
Nú liggja fimmtán á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af tveir á gjörgæslu Á síðunni Covid.is kemur fram að 68 manns hafi náð sér af sjúkdómnum.
Í dag hafa 12.615 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins. Síðasta sólarhringinn voru 888 sýni tekin, 427 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 461 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Þess skal getið að mismunur getur verið á tölum um sýnatökur annars vegar og fjölfa smita hins vegar sem birtar eru á hverjum degi á Covid.is. Skýringin er sú að birting upplýsinga um smit taka mið af því hvenær sýnið var tekið en ekki hvenær það var greint.
Færri sýni voru um helgina og í upphafi vikunnar en dagana þar á undan er stefndi í skort á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Í gær komu hins vegar um 2.000 sýnatökupinnar til landsins og í dag fundust svo um 6.000 pinnar á veirufræðideild Landspítalans til viðbótar.
Síðustu daga hefur tekist að rekja uppruna margra smita sem áður voru óþekkt. Nú er uppruni níutíu smita af heildarfjöldanum ókunnur. Innanlandssmit eru langflest eða 459 en smit sem rekja má beint til dvalar erlendis eru 253.
Þrír á tíræðisaldri smitaðir
Enn hafa langflest smitin greinst hjá fólki á aldrinum 40-49 ára eða 191. Þrír á tíræðisaldri hafa nú greinst með sjúkdóminn og sextán börn yngri en sextán ára.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ítrekað sagt að tölur um smit muni sveiflast milli daga og að það sé eðlilegt í fámenninu. Á upplýsingafundi almannavarna í gær greindi hann frá því að um 60 prósent allra nýrra smita þann daginn hefðu greinst hjá fólki sem var þegar í sóttkví. Í heildina hefur helmingur allra smita greinst hjá fólki í sóttkví.
Samkvæmt spá sem birt var í gær og byggð á þeim gögnum sem þá lágu fyrir er gert ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi verða greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti náð 1.600 manns samkvæmt svartsýnustu spá.