„Við erum mjög spennt,“ segir Anders Jensen, forseti og framkvæmdastjóri Nordic Entertainment Group, sem rekur streymisveituna Viaplay, í samtali við Kjarnann um innreið fyrirtækisins inn á íslenskan neytendamarkað núna um mánaðamótin.
Jensen ræddi við blaðamann frá heimili sínu í Kaupmannahöfn í morgun. Hann segir Viaplay stefna á að framleiða nokkuð af íslensku sjónvarpsefni og segir Ísland vera „frábært sögusvið fyrir alls konar þætti“, en Viaplay hefur þegar komið að gerð einnar íslenskrar þáttaraðar, Stellu Blómkvist, sem sýnd var í sjónvarpi Símans hérlendis en á Viaplay á Norðurlöndum.
Þegar eru framleiðsluverkefni á vegum Viaplay í undirbúningi hérlendis, en Jensen segir ekki tímabært að ræða einstaka verkefni á þessu stigi. Hann segir Viaplay vilja vera öflugan samstarfsaðila norrænna framleiðenda og þar með íslenskra, þannig að skapandi fólk með stórar hugmyndir þurfi ekki endilega að leita til Hollywood til þess að hrinda þeim í framkvæmd.
Efnið sem Viaplay býður upp á skiptist í fjóra flokka; sérframleitt Viaplay-efni, kvikmyndir, þáttaraðir, barnaefni og íþróttaefni. Streymisveitan er svipuð að uppsetningu og Netflix, það eina sem þarf til að tengjast er greiðslukort til að kaupa áskriftina og nettenging til þess að streyma efninu á margskonar tækjum.
Til að byrja með mun Viaplay bjóða íslenskum neytendum upp á þáttaraða- og þáttaraðapakkann sinn fyrir 599 krónur á mánuði, samkvæmt því sem kom fram í tilkynningu fyrirtækisins sem send var út í morgun.
Íþróttirnar seldar sér
Hvað íþróttir varðar er Viaplay að verða risi á norrænum markaði og hefur til dæmis tryggt sér sýningarréttinn á enska boltanum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi frá 2022-2028, auk þess að vera með sýningarréttinn á Meistaradeild Evrópu á einstaka mörkuðum nú þegar og mikið úrval af öðru íþróttaefni.
Íþróttaefnið er selt sér og verður ekki strax í boði á Íslandi, en Jensen segir að það verði á mjög samkeppnishæfu verði, ekki mikið dýrara en þær 599 krónur sem þáttaraða- og kvikmyndapakkinn mun kosta.
Jensen vill ekki staðfesta að Viaplay muni sækjast eftir sýningarréttinum á enska boltanum og Meistaradeild Evrópu hérlendis, en þessir sýningarréttir eru í höndum Símans og Sýnar í dag.
Hann segir ekki tímabært að tjá sig um það, en bætir við að sagan sýni að Viaplay hafi verið „í sóknarhug“ þegar komi að því að tryggja sér útsendingarréttinn á þessu efni á Norðurlöndunum.
Hann leggur áherslu á að Viaplay vilji alltaf gera meira en bara „tryggja sér sýningarréttinn“ að íþróttaefni og segir alltaf mikla áherslu lagða á umgjörð og þáttagerð tengda því íþróttaefni sem sýnt er í gegnum streymisveituna.
Sækjast ólíklega eftir íslensku íþróttaefni
Viaplay er einnig með sýningarréttinn á til dæmis sænsku og dönsku úrvalsdeildunum í fótbolta. Jensen segir aðspurður að hann telji „ólíklegt“ að Viaplay reyni að kaupa sýningarréttinn að íslensku íþróttaefni, þar sem fyrirtækið vilji reyna að vera með íþróttaefni sem höfði til áhorfendahópa á öllum samnorræna markaðnum. Hann bætir þó við að aldrei skuli segja aldrei.
Spurður út í hvaða aðdráttarafl íslenski markaðurinn hafi fyrir Viaplay, í ljósi smæðar hans, segir Jensen að Viaplay vilji vera „sannarlega samnorræn“ streymisveita og svo hafi það einnig verið svo að innreið á íslenska markaðinn hafi haft lítinn jaðarkostnað í för með sér fyrir fyrirtækið.