Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, hefur komist að samkomulagi við stjórn félagsins um að hann láti af störfum eftir áratug í starfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Enn fremur segir að Viðar muni láta af störfum um næstu mánaðamót en verði áfram í stjórn félagsins til ráðgjafar næstu mánuði.
Herdís Fjeldsted, formaður stjórnar Valitor, tekur tímabundið við starfi forstjóra. Hún mun gegna starfinu þar til stjórn hefur ráðið forstjóra til frambúðar. Þór Hauksson, varaformaður stjórnar, tekur við sem stjórnarformaður á meðan Herdís sinnir starfi forstjóra, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Viðar segir í tilkynningunni að hann hafi stýrt fyrirtækinu í viðburðarík 10 ár og að verkefnin hafi verið fjölbreytt og krefjandi. „Ég hef tekið þátt í mikilli uppbyggingu og markaðssókn Valitor erlendis og nú síðast farið fyrir gagngerri endurskipulagningu á starfseminni í góðu samstarfi við stjórn félagsins. Valitor er fjárhagslega sterkt fyrirtæki með öflugt starfsfólk og því vel búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Ég tel þetta því vera rétta tímann til að stíga til hliðar og fela öðrum að taka við keflinu. Þakkir til alls þess góða fólks sem ég hef starfað með á þessum áratug og óska ég félaginu og starfsfólki þess alls hins besta í framtíðinni.“