Laun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og æðstu embættismanna verða fryst til 1. janúar 2021, verði breytingartillaga fjármála- og efnahagsráðherra, til efnahags- og viðskiptanefndar við bandorm um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, samþykkt á Alþingi.
Í október 2016 hækkuðu laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs þá urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Þessar launahækkanir, sem voru úr öllum takti við almenna launaþróun, voru harðlega gagnrýndar.
Laun þessa hóps áttu að hækka í fyrrasumar en því var þá frestað vegna lífskjarasamninganna. Því verður launahækkun þessa hóps nú frestað annað árið í röð.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að tillagan hafi verið samþykkt í ríkisstjórn í morgun og rædd á fundi formanna stjórnmálaflokka á Alþingi í dag. „Í henni er kveðið á um að hækkun launa alþingismanna, ráðherra og ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara, sem hefði átt að koma til framkvæmda 1. júlí 2020 verði frestað til 1. janúar 2021.“