Ákveðið hefur verið að Reykjalundur verði varasjúkrahús fyrir Landspítala í COVID-19 faraldrinum sem nú geisar. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans og Anna Stefánsdóttir, starfandi forstjóri Reykjalundar, undirrituðu samstarfssamninginn 26. mars 2020. Páll sagði af því tilefni að samningurinn bæri vitni hinni víðtæku og góðu samvinnu sem Landspítali á við Reykjalund og raunar aðrar samstarfsstofnanir. Það væru allir með á þessum vagni.
Tilgangur með samningnum er að stytta legu á deildum Landspítala í ljósi aukins álags vegna Covid-19 faraldursins og veita sjúklingum nauðsynlega eftirmeðferð. Ennfremur að nýta tiltækt legurými og sérþekkingu starfsfólks Reykjalundar á meðferð og þjálfun að því marki sem unnt er án sérstakrar þjálfunaraðstöðu. Sérgreinar lyflækninga sem um ræðir eru einkum lungnalækningar, taugalækningar og hjartalækningar auk almennra lyflækninga. Samstarf sem verið hefur um bæklunarsjúklinga breytist ekki, segir í frétt frá Landspítalanum.
Reykjalundur leggur til allt að 26 rúm á sólarhringsdeild og þjónustan felst í hjúkrun, læknismeðferð, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf og fleiru eftir þörfum.
Páll Matthíasson sagði í samtali við Vísi í dag að þegar væri farið að flytja sjúklinga á Reykjalund, sjúklinga sem ekki eru veikir af COVID.19