Stjórn Samherja ákvað í dag að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur til starfa og verði forstjóri við hlið Björgólfs Jóhannssonar sem gegnir forstjórastarfi sínu áfram þar til annað verður ákveðið.
Í tilkynningu á vef Samherja segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, að Þorsteinn Már fái það verkefni að leiða aðgerðir Samherja vegna þeirra fáheyrðu aðstæðna sem eru uppi vegna útbreiðslu COVID-19. „Stjórn Samherja telur að sterk forysta með ítarlega þekkingu á mannauði, veiðum, vinnslu, sölu, flutningum og öllum öðrum rekstri samstæðunnar muni skipta sköpum í þeim aðgerðum sem ráðast þarf í. Þorsteinn Már hefur áður stýrt Samherja í gegnum íslenska bankahrunið og alþjóðlegu fjármálakreppuna með framúrskarandi árangri. Stjórn Samherja telur því að enginn sé betur í stakk búinn að takast á við núverandi aðstæður.“
Þorsteinn Már er einn helsti eigandi Samherja ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Helgu S. Guðmundsdóttur og frænda sínum Kristjáni Vilhelmssyni. Stjórn Samherja situr í umboði eigendanna.
Steig til hliðar eftir umfjöllum um meint brot tengd Namibíustarfsemi
Björgólfur tók við forstjórastarfinu tímabundið eftir að Þorsteinn Már ákvað að stíga til hliðar í nóvember. Það gerðist í kjölfar þess að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu. Í umfjölluninni steig fram uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem sagði að öll ætluð mútubrot Samherja í landinu hefði verið framkvæmd með vitund og vilja forstjórans, Þorsteins Más.
Í tilkynningu Samherja í dag segir að rannsókn á starfseminni í Namibíu muni halda áfram óháð breytingum á yfirstjórn samstæðunnar. „Wikborg Rein mun áfram heyra beint undir stjórn Samherja og Björgólfur Jóhannsson mun áfram veita lögmannsstofunni allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem hún þarf. Þótt reikna megi með töfum á rannsókninni vegna þeirrar fáheyrðu stöðu sem er uppi er enn stefnt að því að ljúka henni í vor. Verða niðurstöðurnar kynntar fyrir stjórn Samherja og þar til bærum stjórnvöldum strax í kjölfarið.“
Auk rannsóknar Wikborg Rein á málum Samherja eru yfirvöld í Namibíu, Angóla, Íslandi og í Noregi einnig að rannsaka mál tengd Samherja og fjölmargir hafa verið ákærðir fyrir spillingu og önnur efnahagsbrot nú þegar í Namibíu vegna Samherjamálsins, meðal annars tveir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn landsins. Alls sitja tíu manns í fangelsi þar í landi vegna málsins. Engin niðurstaða liggur fyrir í rannsókn á málinu hérlendis enn sem komið er og samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur hún verið í fullum gangi undanfarna mánuði.