Lilja Katrín Gunnarsdóttir mun hætta störfum sem ritstjóri DV og nýr ritstjóri verður kynntur til leiks í dag eða morgun. Auk þess mun að minnsta kosti átta starfsmönnum DV verða sagt upp, jafnt blaðamönnum sem sölumönnum. Frá þessu er greint á vef Mannlífs í dag.
Samkeppniseftirlitið samþykkti í síðustu viku samruna Torgs ehf., eiganda Fréttablaðsins og Hringbrautar, og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV og tengdra miðla. í frétt á vef eftirlitsins kom fram að samruni Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar myndi ekki leiða til þess að markaðsráðandi staða yrði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. „Þá er það jafnframt niðurstaða eftirlitsins, með hliðsjón af umsögn fjölmiðlanefndar, að ekki sé tilefni til að grípa til íhlutunar vegna áhrifa samrunans á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna þessa samruna.“
Botnlaust tap
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun er félagið Dalsdalur ehf. Eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok árs 2018. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið.
Ekki hefur verið greint frá því hver það er sem fjármagnar Dalsdal í ársreikningnum.
Síðastliðinn föstudag var Frjáls fjölmiðlun dæmd til að greiða Fjárfestingafélaginu Dalnum, í eigu Halldórs Kristmannssonar sem á fjölmiðlafyrirtækið Birting, 15 milljónir króna.