Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að rekja megi bætur í hlutabótaleiðinni og skilyrði fyrir brúarlánunum til tillagna stjórnarandstöðunnar en ekki – eins og komið hafi fram í yfirlýsingum fjölmargra ráðherra – að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Þó sé ekki hlustað á allt sem stjórnarandstaðan segir.
Þetta kom fram í máli Loga í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun en hann spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvenær von væri á frekari aðgerðum í þágu fyrirtækja og fólks, hvort ríkisstjórnin myndi leggja til hækkun á barnabótum og auka framlag til vaxa- og húsnæðisbóta til að auka húsnæðisöryggis fólks og hvort hún myndi beita sér fyrir hækkun grunnatvinnuleysisbóta.
„Ríkisstjórnin hefur kynnt eitthvað sem hún kallaði stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar – fyrir utan að vera auðvitað ýkjur – þá blikna þær í samanburði við björgunarpakka nágrannaríkjanna. Þrátt fyrir að vandinn hér sé mikið meiri vegna gríðarlegs umfangs ferðaþjónustunnar,“ sagði hann.
Logi telur að stjórnvöld þurfi að hugsa um fleira en fyrirtæki. „Við þurfum að fara í miklu róttækari aðgerðir gagnvart heimilum í landinu og fólkinu sjálfu.“ Hann sagði jafnframt að barnabótaaukinn hefði verið ágætis leið en þó væri einungis einu prósenti af heildarupphæð björgunarpakkans varið í hana og þar fyrir utan væru engar sérstakar aðgerðir að finna til að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum – engar aðgerðir sem sneru til að mynda að húsnæðisöryggis eða heimilisrekstri.
„Atvinnulausir einstaklingar eru í sérstaklega erfiðri stöðu núna og því kemur á óvart að ekkert hafi til dæmis heyrst um að til standi að hækka atvinnuleysisbætur,“ sagði Logi.
Fagnar því hvernig vinna í nefndum hefur gengið
Forsætisráðherrann sagðist ekki vilja „fara í kritur“ um það hver sagði hvað fyrst. „Ég hef litið á það sem samvinnuverkefni í nefndum þingsins að vinna úr þeim tillögum sem stjórnvöld eru að vinna gríðarlega hratt og leggja inn til þingsins.“
Þá ítrekaði Katrín fyrri orð sín að hún fagnaði því hvernig vinna í nefndum hefði gengið. „Ég fagna því hvernig vinna í nefndum hefur gengið og held ég að það sé óþarfi að fara í einhverjar kritur um það,“ sagði hún.
Hlutabótaleiðin líklega mikilvægasta aðgerðin
Katrín sagði enn fremur að aðgerðir stjórnvalda yrðu endurmetnar mjög reglulega vegna þess að óvissan væri mikil og að ekki væri nokkur ríkisstjórn núna, sem væri að eiga við þennan faraldur, sem gæti sagt með vissu að hún væri komin með endanlegan pakka. „Það er bara ekki þannig í raunveruleikanum.“
Þegar þau í ríkisstjórninni kynntu sínar aðgerðir þá hefði það verið svo að þær skiptust í bein ríkisútgjöld, brúarlán til atvinnulífs og síðan færslu fjármuna til fólks og fyrirtækja. „Ég vil ítreka það að sú leið sem við getum kallað hlutabótaleið er líklega það mikilvægasta fyrir fólkið í landinu núna, því það sem er að gerast núna er tekjufall hjá fyrirtækjum og mikilvægasta verkefnið okkar er að tryggja það að fólk haldi afkomu sinni með því að halda vinnunni, með því að halda ráðningarsamningi við fyrirtæki.“
Ekki svo ólíkar aðgerðir
Hvernig þau væru að setja fram sínar aðgerðir í ríkisstjórninni væri ekki ósvipað því hvernig nágrannalöndin væru að gera. „Þó er framsetningin ólík, til dæmis tiltaka Danir sérstaklega áhrif sveiflujöfnunar á hagkerfið upp á 2,5 prósent af landsframleiðslu sem við gerum ekki þótt sjálfvirkir sveiflujafnarar á Íslandi séu mjög miklir, þ.e.a.s. annars vegar vegna tekjufalls og hins vegar vegna aukinna útgjalda,“ sagði Katrín.
Þá svaraði hún Loga varðandi hækkun atvinnuleysisbóta á þann hátt að það hefði verið hún sem beitti sér fyrir því að bætur yrðu hækkaðar árið 2018 í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, ásamt því sem greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa hefðu þá einnig verið hækkaðar.